152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða heimilanna í efnahagsþrengingum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

120. mál
[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski aðalatriðið hér að þegar við skoðum heilt yfir stöðu heimilanna þá er hún sterk. Hún er sterk vegna þess að ráðstöfunartekjurnar hafa vaxið og verðbólga hefur undanfarin misseri verið lág. Vextir hafa verið mjög lágir og við höfum gert umbætur á húsnæðislánamarkaði og bara í fjármálastarfsemi á Íslandi sem leiða til þess að neytendur njóta mun betri kjara. Þetta skiptir máli vegna þess að þegar við stöndum frammi fyrir þeim göllum eða ókostum sem verðbólguskot hefur í för með sér þá skiptir það öllu hver staða heimilanna er.

Hér var því velt upp hvort verg staða væri sú sem ég var að vísa til áðan eða hvort þetta væri hrein staða heimilanna. Ég var einfaldlega að bera skuldirnar saman við ráðstöfunartekjur heimilanna, sem er það sem á endanum skiptir kannski hvað mestu máli, hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum fer í að þjónusta húsnæðislán. Þar er staðan bara býsna sterk og hún er sömuleiðis sterk gagnvart mælikvörðum eins og landsframleiðslu. En ég tek auðvitað undir með þeim sem segja að það eru fáir sem velta því fyrir sér hvað þeir sjálfir skulda í húsinu sínu sem hlutfalli af landsframleiðslu. Það er eflaust mjög sjaldgæft. En aðalatriðið er samt það að eins og staðan er í dag þá sjáum við ekki skýr merki um aukin vanskil í fjármálakerfinu. Og hækkun á húsnæðisverði og aukin verðbólga, hærri vextir en við höfum notið undanfarin tvö, þrjú ár, gefa ástæðu kannski fyrst og fremst til þess að huga að fyrstu íbúðakaupendum, þeim sem enn eiga eftir að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það er fólkið sem maður er kannski einna helst að hugsa um og þar virðist vera mikill markaðsbrestur á framboðshliðinni.