152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Samkomulag um rannsóknir á nýjum flugvelli í Hvassahrauni var undirritað 29. nóvember 2019. Í þeim samningi er gerð grein fyrir hinum ýmsu rannsóknum sem þarf að vinna fyrir árslok 2024 en á fyrstu tveimur árum verkefnisins á hins vegar að klára ákveðnar rannsóknir til að hægt sé að leggja mat á frekara framhald þess. Þau tvö ár eru nú liðin og eðlilegt að spyrja um framhald verkefnisins. Spurningar sem eru settar fram í fyrirspurninni eru:

1. Hvernig miðar undirbúningi og framkvæmdum við nýjan flugvöll samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar frá 2019? Hafa rannsóknir verið fjármagnaðar? Það var búist við 100 milljónum frá hvorum samningsaðila. Hvenær er von á niðurstöðum?

2. Hvers konar rannsóknarniðurstöður myndu teljast neikvæðar og gera flugvöll í Hvassahrauni óæskilegan? Voru þau viðmið sett áður en rannsókn á flugskilyrðum hófst?

3. Ef ákvörðun væri tekin um byggingu nýs flugvallar, hversu langan tíma tæki sú framkvæmd?

Hér hafa heyrst ansi stórar áratölur og í samanburði við framkvæmdir á flugvöllum í öðrum löndum er það dálítið lengri tími en þar heyrist. Miðað við að fyrsta fasa rannsóknarinnar ætti að vera lokið, hefur ráðherra fengið einhverja kynningu á frumniðurstöðum og gefa þær eitthvað til kynna um framhald verkefnisins? Miðað við hagræna frumathugun Rögnunefndarinnar er nefnilega um að ræða 100–150 milljarða kr. samfélagslegan ábata á verðlagi dagsins í dag af því að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Það munar nú um minna fyrir landsmenn. Ábatinn væri enn meiri ef spítalinn hefði ekki verið byggður við Hringbraut heldur á aðgengilegri stað fyrir bæði höfuðborgarbúa og íbúa landsbyggðarinnar, sem dæmi. Metið er að heildarferðatími þeirra sem væru að fara í sjúkraflug myndi lengjast um u.þ.b. tíu mínútur, sem myndi núllast út ef spítalinn hefði verið byggður á aðgengilegri stað. En það er kannski allt í lagi því að það er alls ekkert ólíklegt að það þurfi bara að byggja nýjan spítala þegar þessari framkvæmd í Hvassahrauni á að ljúka miðað við þann fjölda ára sem maður hefur heyrt að taki að byggja þennan flugvöll. Þegar allt kemur til alls þá eru þessar auka tíu mínútur væntanlega engar, enda eru líka til fleiri lausnir til að stytta slíkan tíma en endilega þarna. En sá hluti sem snýr að þeim ferðatíma er ekki nema einhver örfá prósent, 2–4%, af heildarferðatíma sjúklinga. Augljósa spurningin hlýtur því að vera að ef hagrænar væntingar eru svona gríðarlega jákvæðar, um 2–3 milljarðar á ári ef maður tekur það niður á ár, hvers vegna hefur þetta verkefni tafist jafn mikið og raun ber vitni?