152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:26]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta stóra mál upp svo að við eigum möguleika á að fjalla um það hér. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að fyrir nokkrum árum lá fyrir ávinningur af mjög mikilli stærðargráðu, upp á 150 milljarða, í skýrslum viðurkenndra aðila. Mér fannst málið þá þess eðlis, það væri það hagkvæmt eða mikill ávinningur af því fyrir þjóðarbúið, að við yrðum að skoða alla hluti gaumgæfilega og almennilega og geta svarað þessu. Ég hef ekki fengið endanlegar skýrslur um þetta allt saman en í ljós hefur komið að þessi ávinningur er ekki fyrir hendi, enda voru menn þarna að bera saman epli og appelsínur eins og oft gerist. Þegar menn fara að bera saman raunverulega hluti þá er ávinningurinn ekki eins mikill. Ég vil líka segja að rannsóknirnar í heild sinni, eins og hv. þingmaður var að vísa til að væri skipt í tvennt að stóru leyti, hafa í raun gengið býsna vel. Ég kem kannski aðeins inn á tímalínuna í því undir lokin.

Varðandi spurningar hv. þingmanns þá hafa rannsóknirnar verið fjármagnaðar þannig að hvor aðili um sig, ríkið annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar, leggur að jöfnu til fjármagn til rannsókna og þær hafa verið innan þeirra marka sem við settum og það sem um hefur verið samið. Rannsóknirnar standa enn yfir og þær eru af margvíslegum toga. Veigamestar eru veðurmælingar sem hófust í ársbyrjun 2021. Það er ætlað að þær standi yfir til ársloka á þessu ári, þ.e. verði alveg tvö heil ár. Hins vegar er mat á náttúruvá sem stóð til að yrði unnið á síðasta ári en verður unnið á þessu ári af hálfu Veðurstofunnar og í framhaldinu verður unnið úr rannsóknargögnum og áætlað er að niðurstöður liggi fyrir í síðasta lagi um mitt ár 2023. Það liggur ekki fyrir ákvörðun um hvort af gerð flugvallarins verður þar sem grundvallarrannsóknum er ekki lokið og það væri ekki mjög skynsamlegt að hefja framkvæmdir áður en slíkum rannsóknum lýkur. Slíkar ákvarðanir hafa því auðvitað ekki verið teknar.

Varðandi rannsóknarniðurstöður, hvort viðmið hafi verið sett áður um það hvers lags niðurstöður teldust jákvæðar eða neikvæðar, þá er stutta svarið: Já, viðmiðin eru sett fyrir fram, þau eru þekkt, til að mynda nýtingarstuðull. Í samkomulaginu er lögð áhersla á að áætla nýtingarstuðul flugvallarins í samanburði við þá flugvelli sem fyrir eru á suðvesturhorninu og viðmiðið er að flugvöllurinn í Hvassahrauni verði jafn góður eða betri en Reykjavíkurflugvöllur. Það kemur fram í samkomulaginu og þar eru nýtingarstuðlar á bak við. Helsta áhyggjuefnið þegar rannsóknir hófust var ókyrrð í lofti eða flugkvika og því hefur verið lögð áhersla á að meta hana. Síðan, eins og allir þekkja hófst eldgos í Fagradalsfjalli sem hefur aukið vægi náttúruvár í umræðunni.

Lokaspurning er kannski þessi: Ef allt þetta yrði nú jákvætt og talið yrði hagkvæmt og skynsamlegt, miðað við viðmiðin og nýtingarstuðla og annað, að fara í þessar framkvæmdir, hversu langan tíma tæki það? Miðað við reynslu af undirbúningi stærri framkvæmda má búast við að skipulagsbreytingar geti tekið um tvö ár að lágmarki. Umhverfismat á þessari framkvæmd hefur verið talið taka á milli fimm til átta ár, hönnun um tvö ár og framkvæmdir með útboðsferli um sex til átta ár. Samanlagt gæti tíminn því orðið 15–20 ár. Það er sambærilegur tími miðað við reynslu erlendis af verkefnum af svipuðum toga. Auðvitað er í einhverjum tilvikum samtímis hægt að vinna einhver af þessum verkefnum. En stóra myndin er þessi: 15 ár, kannski 12 eða 13 ár og upp í 20 ár, þ.e. til 2035 eða 2040 sirka ef við erum að horfa á þetta í dag. Tímalínan við rannsóknirnar er sú að þeim hefur fyrst og fremst seinkað vegna þessarar náttúruvár, vegna eldgosa og jarðskjálfta sem hafa verið, þannig að Veðurstofan hefur einfaldlega ekki treyst sér til þess að klára það verkefni en bæði veðurrannsóknir og flugrannsóknir hafa verið í fullum gangi.