Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi töluna 150 milljarða í því samhengi að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Ég held að sú tala geti hækkað verulega, a.m.k. í 200 milljarða. Ég hef ekki verið talsmaður þess yfir höfuð að flytja Reykjavíkurflugvöll, en ef svo færi að það væri nauðsynlegt þá teldi ég að innanlandsflugið ætti að fara suður til Keflavíkur og við ættum að byggja þar upp þá aðstöðu sem þarf til þess. Ég held að það sé mun hagkvæmara og skynsamlegra. Þar er okkar alþjóðaflugvöllur og öll sú aðstaða sem þarf. Ég legg sérstaklega áherslu á það sem kom fram í máli ráðherra að það liggur ekki fyrir mat á náttúruvá, sem hefur náttúrlega breyst heilmikið núna á einu ári, það er rétt ár síðan gosið hófst. Páll Einarsson, okkar virti jarðvísindamaður, hefur einmitt minnst á að nú sé kominn sá tími á Reykjanesskaganum að við megum búast við eldsumbrotum næstu áratugina ef ekki næstu árhundruð, þannig að ég held, þar sem nú liggur fyrir þessi skýrsla um mat á náttúruvá, að þar verði breyttar forsendur. Það er mín skoðun.