Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Eins stórt mál og þetta er þá er þetta samt hluti af miklu stærra vandamáli. Það er í raun skortur á heildarsýn í því hvernig bæði samgöngur á landi og samgöngur í flugmálum eigi að þróast á næstu áratugum með tilliti til t.d. heilbrigðisöryggis. Það er að mínu mati óásættanlegt að það sé ákveðinn flöskuháls í Reykjavík fyrir öryggi vegna Landspítalans, að allir þurfi nauðsynlega að koma hingað í ákveðnar öryggisaðgerðir. Það ætti að sjálfsögðu að vera dreifðari áhætta hvað það varðar út af því að við búum í mjög miklu veðurofsalandi, eins og við höfum séð nú í febrúar.

Ég kalla eftir því, af því nú er búið að stofna hérna innviðaráðuneyti og það á að ná öllu saman og gera allt skilvirkara, að við fáum plan á borðið um það hvernig þetta á eftir að virka, ekki bara til 5 og 15 ára eins og í samgönguáætlun heldur einmitt með tilliti til skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum, sem fjármálaráðuneytið gefur út, varðandi mannfjöldaþróun, varðandi stefnu stjórnvalda um það hvernig byggð á að þróast víðs vegar um landið. Hvar verða alþjóðaflugvellir úti um allt land? Hvar verður neyðarþjónusta vegna heilbrigðismála úti um allt land með tilliti til þeirra tenginga?

Þetta mál er einn hluti af því sem varðar suðvesturhornið. Það er rosalega mikilvægt að skýr stefna sé um það hvert verið er að fara. Það er ekki tækt lengur að það sé flugvöllur í Vatnsmýrinni. Það er ekki tækt að sjúkrahúsið sé við Hringbraut, það er það bara ekki. Þrengingarnar eru of miklar, hafa verið heillengi og við höfum vitað það heillengi. Við höfum vitað það frá upphafi þessarar aldar en samt var ekki farið eftir því þannig að á næstu árum eða áratugum (Forseti hringir.) þurfum við að teikna upp heildarmyndina af þessu (Forseti hringir.) til þess að hægt sé að framkvæma eitthvað sem heitir byggðastefna á Íslandi.