Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil jafnframt þakka hv. þingmönnum fyrir að taka með málefnalegum hætti þátt í þessari umræðu. Það er rétt, sem einn þingmaður nefndi, að þessir 150 milljarðar voru ávinningur við alþjóðaflugvöll og þeirri tölu hafði verið fleygt fram hér fyrir nokkrum árum. Það var ástæðan fyrir því að ég setti þessa vinnu í gang í upphafi síðasta kjörtímabils, ég vildi ekki vera sá ráðherra sem skoðaði ekki hvort við ættum möguleika á að fá 150 milljarða ávinning, samfélagið. En kostnaður við uppbygginguna er hins vegar miklu meiri, eins og annar hv. þingmaður kom hér inn á. Hann er miklu meiri, það sem búið er að skoða. Hann er ekkert ósvipaður tvöföldun á uppbyggingunni í Keflavík. Það er rétt að hægt er að skoða skipulagið, ég kem aðeins inn á það hér á eftir.

Varðandi fyrirspurnina um skilyrðin í Vatnsmýrinni þá er það alveg skýrt að í þessu samkomulagi skal Reykjavíkurborg viðhalda sama rekstraröryggi og á núverandi flugvelli. Ef Skerjafjarðarhugmyndirnar raska því þarf einfaldlega að stöðva þær, þær þurfa að bíða. Það liggur fyrir, nema einhverjar mótvægisaðgerðir séu til, ef það væri þannig. Þessu þarf bara að svara og það er í vinnslu og mun skýrast.

Ég er sammála þeim sem hóf umræðuna; stóra myndin er auðvitað að horfa á þetta í 30–50 ára skipulagi í öllum þessum þáttum og þannig höfum við verið að vinna þetta, þannig höfum við verið að hugsa þetta og þannig höfum við verið að undirbúa samgönguáætlun og flugstefnu og þessa stóru mynd, eins og með Sundabrautina, um það hvort Sundahöfnin verði þarna til næstu 50 eða 70 ára. Þannig að ef ég má sletta, frú forseti: „Be my guest“, ég er tilbúinn í þessa umræðu og ég hef lengi verið tilbúinn í hana. Hún tengist umræðu um íbúaþróun hér á þessu svæði og þróun sveitarstjórnarstigsins og meginflutningsleiðanna. En við erum að ræða þetta, bæði í samgönguáætlun og flugstefnu, og það er hugsunin á bak við þá stefnu.