Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmum tveimur árum síðan undirrituðu sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið svokallaðan samgöngusáttmála. Sáttmálinn inniheldur fögur fyrirheit um það sem áttu að vera umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu. Þar skuldbinda aðilar samkomulagsins sig til að flýta tilteknum framkvæmdum í Reykjavík og fyrirspurn mín til hæstv. innviðaráðherra snýr að þeim. Spurningarnar eru skýrar og einfaldar og ég vonast til að fá skýr og einföld svör. Það er engin þörf á flækjum og málalengingum þegar ég er bara að spyrja um stöðu á framkvæmdum:

Er búið að bæta umferðarljósakerfi og snjallvæða umferðarljósin okkar, aðgerð sem átti að ráðast í þegar í stað? Hvað með gatnamót við Bústaðaveg og gatnamótin við Breiðholtsbraut sem átti að ljúka á árinu 2021? Hver er staðan á þeim gatnamótum, sem sett voru í forgang vegna hárrar slysatíðni? Hver er staðan á uppbyggingu Keldnalands? Hún er á lista yfir flýtiframkvæmdir og áhugavert að fá svör við því, ekki síst í ljósi stöðunnar á fasteignamarkaðnum í Reykjavík. Hefur leiðarkerfi Strætó verið bætt frá því samkomulagið var undirritað?

Markmið sáttmálans er að auka öryggi, bæta samgöngur, minnka tafir og draga úr mengun og það er ríkið sem fjármagnar hann að langstærstum hluta. Það er ríkið sem borgar brúsann. Ég lagði fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem þingmaður Reykvíkinga, ekki síst til að hvetja hann til þess að hafa öflugt og virkt eftirlit með því að Reykjavíkurborg standi við samkomulagið. Það fer nefnilega ekki fram hjá okkur sem búum í Reykjavík að þessar framkvæmdir eru ýmist ekki hafnar eða komnar mjög skammt á veg þrátt fyrir að þeim hafi átti að vera lokið á síðasta ári.