Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og málshefjanda þessa góðu umræðu og mikilvægu. Það byrjar ekki sérstaklega vel, þykir mér, samstarfið sem grundvallast á samgöngusáttmálanum. Ef við horfum á stofnbrautaframkvæmdirnar, þau tvö erfiðu og flóknu gatnamót þar sem ætlunin var að ganga til verks með mislægum gatnamótum, þá hefur í báðum tilvikum verið fallið frá þeim áætlunum, bæði hvað varðar Bústaðaveg og Reykjanesbraut og Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. Þetta þykir mér ekki góð byrjun á þessu öllu. Síðan er það spurningin, sem hefur komið á óvart hversu léttvæg svör berast við: Hvert fer umferðin ef farið verður í kjarnaframkvæmd í þessu öllu, Miklubrautarstokkinn? Ekki virðist með nokkru móti hægt að tosa út sjónarmið þeirra bestu sérfræðinga sem að málinu koma um það hvert umferðin skuli fara, því að auðvitað hverfur hún ekki eins og dögg fyrir sólu. Mínúta er knappur tími í svona umræðu en það væri áhugavert að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur betri upplýsingar um það hvert umferðin á að fara meðan unnið verður að stokki á Miklubraut.