Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þakkir til hv. þingmanns og hæstv. ráðherra, ég held að það sé mikilvægt að við ræðum málefni höfuðborgarsvæðisins. Þau verða allt of oft út undan og við höfum horft fram á algjört fjársvelti þegar kemur að framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu svo áratugum skiptir. Þess vegna fagnaði ég mjög höfuðborgarsáttmálanum. Loksins, loksins myndum við sjá raunverulegt fjármagn renna til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og það er mikilvægt. En ég ætla að taka undir ákveðin vonbrigði varðandi ljósastýringarmálið. Ég sat einmitt fund eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hjá Vegagerðinni og ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að sjá að við værum enn þá í fyrstu skrefunum í ljósastýringarmálum. Það er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ég fékk þegar við vorum að ræða þetta mál. Mér finnst mikilvægt að við sem þingmenn fáum betri upplýsingar um raunverulega stöðu á því máli og af hverju það er svo að bætt ljósastýring er ekki að skila jafn miklu og ráð var fyrir gert í upphafi.