Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:58]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Þegar við ræddum samgöngusáttmálann á sínum tíma var þessi umferðarljósastýring töluverður hluti af því máli. Það er því mikilvægt að upplýsa þingið, t.d. í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, ef eitthvað hefur breyst í eðli sínu varðandi umferðarljósastýringuna. Svo legg ég áherslu á það varðandi Sundabrautina, sem var hluti af því samkomulagi, þ.e. að hún kæmi inn, að það hefur síðan komið í ljós núna á síðustu vikum varðandi arðsemi framkvæmda að það er varla hægt að finna í þessu landi arðbærari framkvæmd en Sundabrautina. Og síðan eitt rétt í lokin um skipulagsmálin. Sem ungur maður, sem ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, man ég að gamla Hringbrautin var full alla morgna út á Nesið og af því á kvöldin. Þetta hefur ekki breyst í 40 ár. Það hlýtur að vera lykilatriði í þessu máli að færa störfin austar í borgina nær íbúamiðju borgarinnar. Þá gætum við kannski náð einhverri skynsamlegri nýtingu til næstu áratuga til að finna einhverja lausn á málinu. Það væri að byggja upp svæðin austar í borginni til að jafna umferðina.