Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[17:02]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi klára fyrri spurningarnar varðandi leiðakerfi Strætó og ítreka að samgöngusáttmálinn snýst um uppbyggingu en ekki rekstur. Engu að síður fylgdu auðvitað með Covid-19, sem skall á allt og alla, verulegar takmarkanir á samgangi og samskiptum almennings og þar með almenningssamgöngum. Það fylgdi auðvitað hrun í fjölda farþega í strætó með tilsvarandi samdrætti í tekjum. Ríkið styrkti engu að síður almenningssamgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega um 120 milljónir á síðasta ári vegna áhrifa faraldursins, sem það gerði líka í öðrum almenningssamgöngum á landinu. Strætó hefur, eftir því sem ég fékk upplýsingar um, verið að bæta einhverjar leiðir. Akstur hófst á leið 22 í Urriðaholti í Garðabæ 2020, tíðni var aukin haustið 2021. Það sama gildir um að akstur var hafinn á nýrri pöntunarleið í Gufunesi sem og í iðnaðarhverfi í Hellnahrauni, sem er leið 26, núna í byrjun febrúar.

Það sem ég vildi koma hér að er að ég er á þeirri skoðun að umferðarljósastýringarnar muni skila mjög miklu. Ég hef ekki heyrt að þær hafi verið ofmetnar. Það getur vel verið að einhverjir þingmenn hér í þessum sal hafi talið að þær myndu skila enn meiru. Ég verð að segja alveg eins og er að ég heyri að hér eru margir sérfræðingar sem telja að meira að segja þeir viti um hvað kerfið sé hannað. Ég þykist ekki vera með þá þekkingu. Ég hef setið marga fundi um það sem er verið að gera. Ég treysti þessu fólki. Við fengum bæði erlenda sem innlenda sérfræðinga til að skoða kerfið, sem er frá Siemens, sem sögðu að það væri bara í lagi. Það þarf bara að laga þetta og uppfæra þetta og það verður mjög gott. Það ferli er í gangi. Sú vinna er í gangi. Hefur hún gengið hægar en til stóð? Já, mér finnst það, hún hefði mátt ganga hraðar. Hefði uppbyggingin á stofnbrautunum og borgarlínuverkefninu mátt ganga hraðar miðað við fyrstu drög? Já, hún hefði mátt gera það. En það er bara svo margt annað sem tekur tíma í þessu ferli. Mislæg gatnamót, (Forseti hringir.) er hræðilegt ef þau eru ekki ef það er bæði brú og að bestu manna yfirsýn búið að hanna að þetta virki sem góða samgöngubót og (Forseti hringir.) örugg á einhverjum gatnamótum? Ég ætla ekki að standa hér og dæma um það.

Ég ætla að halda því hér fram í lokin að við séum á býsna góðri leið með samgöngusáttmálann (Forseti hringir.) og hann sé í traustum höndum Betri samgangna sem ég treysti ágætlega til að þróa verkefnið áfram.