Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

sjávarspendýr.

225. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það færi nú kannski betur á því að tala hér heildstætt um málefni hafsins, sérstaklega í ljósi þess að fólk er farið að átta sig á því betur og betur að loftslagsvandinn og málefni sjávar eru bara tvær hliðar á sama pening. Hér fjöllum við aðeins um sjávarspendýrin, sem ég held samt að tengist heildarsýninni frá Íslands hálfu meira en víðast hvar, vegna þess að það má halda því fram varðandi hvalveiðistefnu stjórnvalda, að sá þvergirðingsháttur að halda í ósjálfbærar nytjar sjávarspendýra ríkisstjórn fram af ríkisstjórn hafi tafið fyrir þeirri stefnumótun sem ella hefði átt sér stað, mótun heildstæðrar stefnu sem taki saman loftslagsbreytingar, súrnun og mengun hafsins, sem og vernd líffræðilegrar fjölbreytni í takt við sjálfbæra nýtingu á lífrænum auðlindum sjávar, eins og það heitir, ef ég man rétt.

En hér erum við komin til að ræða sérstaklega um sjávarspendýrin. Það er nú líka dálítið umhugsunarvert hvað við vitum lítið um þau. Áhrif hvala t.d. á nytjastofna við strendur Íslands eru lítið þekkt, áhrif hávaða og skipaumferðar neðan sjávar, lítið þekkt líka, og áhrif hvala á lífríkið í heild sinni, ekki heldur mikið þekkt. En það er hins vegar margt sem bendir til þess að hvalir gegni lykilhlutverki í því að dreifa næringarefnum um sjóinn, að fanga kolefni neðan sjávar, og það mætti jafnvel líkja eyðingu hvala við stórtæka skógareyðingu í regnskógum Amazon, svo mikil eru jákvæð áhrif hvala á loftslagsmál. Mér reiknast svo til að sennilega sé eina opinbera rannsóknin sem farið hefur fram, svona langtímarannsókn fyrir tilstuðlan opinberra stofnana, athugun á sjávarspendýrafælum, alltaf á forsendum nýtingar en ekki til að skilja náttúrunnar betur.

Ég hef lagt fram tvær spurningar. Lesendur Morgunblaðsins fengu reyndar forsmekk að svari við annarri þeirra sem snýr að því hvort ráðherra hyggist framlengja heimild til veiða á langreyði og hrefnu þegar núverandi reglugerð rennur út. Mig langar bara að fá skýrt fram hver afstaða ráðherra er til þess og hvort einhugur ríki innan ríkisstjórnarinnar til þeirra mála. Og síðan, vegna þess að síðasti umhverfisráðherra fékk ekki pólitískan stuðning við að leggja fram fullburða frumvarp til heildarendurskoðunar villidýralaga, hvort ráðherra matvæla muni beita sér fyrir því að sjávarspendýr færist inn í villidýralög og verði þar á sínum rétta stað með öðrum spendýrum.