Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

sjávarspendýr.

225. mál
[17:25]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og fram kemur í máli hans skiptist spurningin í tvennt. Ég myndi svo gjarnan vilja eiga lengra og ítarlegra samtal um málefni hafsins almennt og ekki síst umhverfissjónarmiðin þar.

Varðandi fyrri spurninguna um heimildirnar til veiða á langreyði og hrefnu: Þegar veiðitímabilinu lýkur samkvæmt þeirri reglugerð sem nú er í gildi, eins og hv. þingmaður vísar til, þá hefur það komið fram í grein sem ég skrifaði að ég tel að við þurfum að horfa til þess hvort hægt sé að rökstyðja það efnahagslega að halda þeirri heimild opinni. Í sjálfu sér, svo að maður horfi nú bara á staðreyndir máls, er það óumdeilt að þessar veiðar hafa ekki haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið á síðustu árum. Síðustu þrjú ár hafa engin stórhveli verið veidd en ein hrefna á árinu 2021 og bendir fátt til þess að efnahagslegur ávinningur sé af því að stunda þessar veiðar þar sem þau fyrirtæki sem hafa til þess leyfi, hafa getað veitt hval síðustu árin, hafa ekki gert það. Ef ég sem ráðherra gef mér að þau fyrirtæki sem hafa leyfi til að stunda þessar veiðar hegði sér eins og fyrirtæki gera almennt, þ.e. taki ákvarðanir á markaðslegum grunni, þá hafa þau talað býsna skýrt, bara með því að veiða enga hvali síðastliðin þrjú sumur. Þau telja því augljóslega ekki vera markaðslegar forsendur fyrir veiðunum.

Ég mun láta vinna mat á mögulegum þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum þessa að heimila áframhaldandi hvalveiðar á því ári sem hér er undir en það mat mun fara fram á þessu ári. Það geri ég bara á grundvelli gildandi laga og um það hefur ekki verið fjallað sérstaklega í ríkisstjórn, enda er það hluti af því sem mér ber að horfa til þegar ég er að fara að þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt í þessu efni.

Hv. þingmaður spyr síðan um heildarendurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem hafa stundum verið kölluð villidýralög. Þau, eins og hv. þingmaður veit, falla undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Með skýrslu svokallaðrar villidýranefndar er væntanlega átt við skýrslu nefndar um lagalega stöðu þessa málaflokks sem starfaði á árinu 2013 og skilaði af sér skýrslu sem unnin var fyrir þá sem hér stendur, sem þá gegndi embætti umhverfis- og auðlindaráðherra, og var útgefin í apríl 2013. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég er orðin nokkuð langeyg eftir því að þessi lög verði uppfærð.

Frá því að þessi skýrsla var gefin út hefur átt sér stað mikil þróun í málefnum sjávarspendýra. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið setti reglugerð árið 2017 um bann við hvalveiðum á tilteknum svæðum, reglugerð á árinu 2019 um bann við selveiðum og reglugerð 2021 um velferð sjávarspendýra við fiskveiðar og fiskeldi í sjó. Það er líka viðauki með reglugerð 2019 þar sem mælt er fyrir um leyfilegan heildarafla tiltekinna hvalategunda o.s.frv.

Það kemur hv. þingmanni sennilega ekki á óvart er að sú sem hér stendur telur að málefni sjávarspendýra ættu almennt að heyra undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Það er hins vegar ótvírætt að samkvæmt gildandi lögum falla málefni sjávarspendýra, hvala og sela undir lög sem heyra undir matvælaráðuneytið, þ.e. lög um hvalveiðar hvað varðar hvali og lög um lax- og silungsveiði er varðar seli. Þá ná lög um velferð dýra líka til sjávarspendýra.

Í þeirri vinnu sem mun eiga sér stað á kjörtímabilinu um áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, og var raunar kynnt á vef ráðuneytisins og í samráðsgátt stjórnvalda í dag, er stefnt að því að leggja fram frumvarp um málefni fiskveiðistjórnunar. Þar mun gefast kostur á að taka umræðu um þessi mál almennt en afstaða mín til málsins er skýr.