Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

sjávarspendýr.

225. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það er gott að heyra að núverandi ráðherra sjávarútvegsmála hefur aðra skoðun á málinu en sá sem síðast sat í embætti. Ég spurði, fyrir tveimur löggjafarþingum, að ég held, ráðherrana tvo, sem togast á um það hvorum megin sjávarspendýrin eigi heima, út í málið. Þáverandi umhverfisráðherra vildi að sjálfsögðu, eins og allt fólk sem hefur kynnt sér greinargóða skýrslu villidýranefndarinnar hlýtur að vera sammála um, færa sjávarspendýrin undir heildstæð nútímaleg lög um villt dýr í náttúru Íslands en þáverandi sjávarútvegsráðherra sá enga ástæðu til þess. Nú vona ég að það horfi til betri vegar.

Mig langar að velta því upp, og nú er ég að vísa aftur til greinarinnar sem hæstv. ráðherra birti í Morgunblaðinu um þessi mál, í kjölfar fyrirspurnarinnar, hvort ráðuneytinu hætti kannski til að skoða sjálfbærnivinkilinn of þröngt. Ráðherra talaði í greininni, ef ég man rétt, um að það lægi ljóst fyrir að veiðar á stórhvelum við Ísland væru ekki að tefla stofninum sem slíkum í hættu, að það stefndi ekkert í útdauða tegundarinnar þó nokkrir einstaklingar yrðu veiddir á hverju ári. En í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa komið fram á síðustu árum, varðandi gríðarleg áhrif hvala á lífríki sjávar, á viðgang lífríkisins, sérstaklega í efstu lögum sjávar, þar sem fæða fiskanna verður til og kolefnisföngun þessara dýra, velti ég því upp hvort þessi þrönga nálgun sem ráðuneytið hefur oft viðhaft, varðandi meint afrán hvala á nytjategundum sjávar, sé ekki bara þröng og úreld nálgun, hvort ekki þurfi að víkka þetta.