Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. KPMG tók nýverið saman fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi. Þar má sjá að þessar greinar skila umtalsverðum tekjum til þjóðarbúsins. Þar er líka staðfest að með auknum umsvifum undanfarinna ára hefur afdregin staðgreiðsla í fiskeldi farið vaxandi og á árinu 2019 fór hún í fyrsta sinn yfir 1 milljarð og í tæpa 1,2 milljarða á árinu 2020. Í greiningunni má einnig sjá að skipting tekna á milli ríkis og sveitarfélaga er verulega skökk og hallar þá á sveitarfélögin. Hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið í fiskeldi 26–29% á árunum 2016–202l, sem sagt af gjaldtöku í fiskeldinu og þá fyrst og fremst í útsvarsgreiðslum launþega. Hér þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi fiskeldis fyrir samfélögin þar sem það er stundað fyrir vestan og austan, en samfélögin sem hýsa þessa vaxandi atvinnugrein mega hafa sig öll við til að tryggja innviði sem þarf til að mæta þörfum og halda þræði í uppbyggingarferlinu. Uppbyggingin á innviðum er grundvöllur að vexti greinarinnar og sameiginlegum ábata. Fjölgun íbúa, breytt íbúasamsetning og breytt þjónusta við fiskeldi kallar á miklar fjárfestingar sveitarfélaganna og það reynir mikið á grunnstoðir þeirra, sérstaklega á þeim stöðum þar sem hefur ríkt ládeyða síðustu tvo áratugina. Því er áríðandi að tekjur af gjaldtöku í fiskeldi standi undir nauðsynlegum verkefnum þeirra sveitarfélaga sem standa næst eldinu ásamt því að tryggð verði sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.

Því vil ég spyrja hæstv. matvælaráðherra í fyrsta lagi: Telur ráðherra að núverandi gjaldtökuheimildir í laga- og reglugerðaumhverfi fiskeldis, og þá sjókvíaeldis, tryggi sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað nógu skýrar heimildir til töku gjalda af eldinu? Ef ekki, hyggst ráðherra koma með skýrari tillögur að gjaldtökuheimildum?

Í öðru lagi: Telur ráðherra að núverandi gjaldtökuheimildir í laga- og reglugerðaumhverfi fiskeldis, og þá sjókvíaeldis, endurspegli þann kostnað sem hvert og eitt sveitarfélag þarf að standa undir við uppbyggingu og þjónustu við sjókvíaeldi? Ef ekki, hyggst ráðherra koma með tillögur að betri gjaldtökuheimildum?

Í þriðja lagi: Telur ráðherra að núverandi gjaldtökuheimildir séu heppilegar til að dreifa tekjum af sjókvíaeldi á sveitarfélögin? Ef ekki, hvaða hugmyndir telur ráðherra að séu heppilegar til að dreifa tekjum jafnar í þeim sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað? Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum þess efnis?