Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:38]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þingmaðurinn spyr fyrst um gjaldtökuheimildir og hvort þar sé sveitarfélögum tryggðar nógu skýrar heimildir til töku gjalda af eldinu og ef ekki, hvort ég sem ráðherra hyggist koma með skýrari tillögur að gjaldtökuheimildum. Síðar er spurt hvort þessar heimildir endurspegli þann kostnað sem sveitarfélögin þurfa að standa undir. Það er skýrt markmið í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis og við þá vinnu munum við leggja áherslu á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna. Þetta er það sem okkur er falið í stjórnarsáttmála. Samkvæmt núgildandi laga- og reglugerðarumhverfi er sveitarfélögunum heimilt að innheimta sérstakt gjald af sjókvíaeldi með svonefndu aflagjaldi. Sú gjaldtökuheimild á þó aðeins við ef eldisfiski er landað í viðkomandi sveitarfélagi. Eins og málum er háttað núna er eldisfiski landað á fáum stöðum og því mörg sveitarfélög sem hafa ekki tök á því að innheimta slíkt gjald. Jafnframt hafa fyrirtæki í einhverjum tilvikum notað sláturskip sem þýðir að enginn fiskur kemur að landi og þar af leiðandi engin leið fyrir sveitarfélagið að innheimta aflagjöld. Aðrar leiðir fyrir sveitarfélögin til innheimtu gjalda eru í gegnum hefðbundna tekjustofna, svo sem útsvar. Eins geta sveitarfélög sótt um fjármagn í gegnum fiskeldissjóð en þriðjungur af gjaldtöku ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, rennur einmitt í þann sjóð.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að það verði mótuð heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Ég hef átt góð samskipti við þau sveitarfélög sem eiga þarna ríkasta hagsmuni og fiskeldissjóðurinn mun verða óbreyttur í ár. En í dag mun fara í samráðsgátt stjórnvalda áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla og þar er sérstaklega fjallað um fiskeldi. Verkefnið snýst um að meta stöðu, áskoranir og tækifæri í greininni og þar verður sérstaklega fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskeldis sem og ávinning þeirra byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Gjaldtakan og skipting hennar verður einnig skoðuð sérstaklega. Með tilkomu fiskeldis víða um land hafa sveitarfélög almennt upplifað miklar og jákvæðar breytingar með fjölgun íbúa og auknum atvinnutækifærum en með svo ört stækkandi atvinnugrein fylgja vaxtarverkir. Líkt og fram kom í svari mínu hér að framan mun ég setja útfærslu á gjaldtökuheimildum í forgang við þessa stefnumótun. Þar mun ég fá aðkomu sveitarfélaganna og annarra hagsmunaaðila um það hvernig best sé staðið að þessum málum. Hluti af vinnu við stefnumótunina er að greina þörf á uppbyggingu innviða, hvort heldur er á landsvísu eða innan þeirra sveitarfélaga sem um ræðir. Það er afar brýnt að efla enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviðum loftslags- og umhverfismála. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í innleiðingu hringrásarhagkerfisins á sviði fráveitumála, mengunarvarna, vatnsverndar, náttúruverndar og verndun líffræðilegs fjölbreytileika en starfsemi tengd fiskeldi fléttast inn í öll þessi atriði með beinum og óbeinum hætti, enda er greinin mjög vaxandi og hefur vaxið mjög hratt á mjög stuttum tíma. Það þarf að samþætta betur skipulagsáætlanir sveitarfélaga og svæðisskipulagsstefnu til að hægt sé að nýta betur innviði og þjónustu. Þetta þarf allt saman að vera undir þegar við erum að horfa til þróunar greinarinnar.

Líkt og áður kom fram geta sveitarfélög innheimt tiltekin gjöld í gegnum aflagjald en þau gjöld renna hins vegar bara til þeirra sveitarfélaga þar sem afla er landað. Þetta skapar nokkurn vanda í dreifingu tekna af fiskeldi milli einstakra sveitarfélaga þar sem fiskeldi er stundað. Eins og fram kom geta sveitarfélögin sótt um fjármagn í fiskeldissjóð sem hefur aðeins einu sinni úthlutað og þá kom upp nokkur gagnrýni varðandi landshlutaskiptingu á styrkveitingum. Í ár verður fjárhæðin hækkuð um 80 milljónir, úr 105 milljónum í 185, og sú fjárhæð mun svo hækka stig af stigi næstu ár vegna mjög aukinnar framleiðslu og stigvaxandi gjalds sem mun að fullu koma til framkvæmda árið 2026. Það má áætla að fjárhæðir sem sjóðurinn mun hafa til úthlutunar eftir fjögur ár verði á bilinu 600–800 milljónir. Eins má nefna að sjóðurinn hefur breytt úthlutunarreglum sínum á þann veg að ekki sé hægt að fá hærri styrk til einstakra verkefna en 50 milljónir. Þessi atriði verða öll tekin inn í langtímastefnumótun um fiskeldi en er auðvitað afar mikilvægt til að greinin fái vaxið í sátt við samfélag og umhverfi.