Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka mikilvæga umræðu hér og bæði hæstv. ráðherra og hv. fyrirspyrjanda fyrir þær áherslur sem þær leggja í þessu. Í því samhengi vil ég benda á að við höfum reynsluna og getum kannski lært af henni og hvað við skulum hafa í huga þegar við erum að tala um sjávarútveginn og fiskihafnirnar. Sjálfur bý ég í samfélagi þar sem er landað afla upp á 60 milljarða í útflutningsverðmæti og borgaðar yfir 400 milljónir í veiðileyfagjöld út úr þessu samfélagi. Hins vegar búa 75% af sjómönnunum í öðru sveitarfélagi en mínu og borga því ekki útsvar. Ég sem skattgreiðandi þarf að bera ábyrgð á skuldum hafnarinnar og uppbyggingu innviða sem skapa þessar tekjur fyrir ríkissjóð en sveitarfélagið fær engar tekjur af. Það eru því mörg sjónarmið sem þarf að skoða í þessu og hvet ég ykkur til að hafa það í huga þegar þetta er unnið frekar.