Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:44]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Þegar við unnum að nýjum fiskeldislögum fyrir þremur, fjórum árum þá vorum við m.a. að ræða akkúrat þennan þátt, fiskeldissjóðinn og hvernig þetta ætti að renna til sveitarfélaganna. Það var ákveðið að fara þessa leið. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á má reikna með að þessar upphæðir hækki mjög á næstu þremur, fjórum árum og verði býsna háar 2025, 2026, upp á kannski 600–800 milljónir. Við höfðum þá náttúrlega mjög í huga að þetta yrði bara þróað áfram þannig að það yrði fljótlega farið í að sjá hver reynslan yrði og síðan myndum við þá í löggjöfinni þróa þetta samtal sem var mikið rætt á þessum tíma og mjög nauðsynlegt og ég held að sé nauðsyn á miðað við hvernig hlutirnir hafa þróast. Það eru fyrst og fremst aflagjöldin sem sveitarfélögin hafa náð. Þá var einmitt varað svolítið við sláturskipunum sem hafa verið notuð svolítið þegar einhverjar aðstæður koma upp, hvaða áhrif þau gætu haft. Þetta er mikilvæg ört stækkandi atvinnugrein og við þurfum að þróa þetta samtal sem snýr að tekjum sveitarfélaganna gagnvart atvinnugreininni.