Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir þeirra innslag. Já, það er alveg rétt að þetta er vandmeðfarið og við erum með nýja grein sem við erum að feta okkur áfram með. Í haust var fyrstu greiðslum úr fiskeldissjóði úthlutað, en réttilega var bent á það hér áðan að við settum þetta inn í lög fyrir tveimur árum. Fiskeldissjóður á sér stoð í lögum og gert er ráð fyrir að þriðjungur tekna af gjaldtökum á fiskeldi renni á komandi árum í fiskeldissjóð og verið er að tala um að við þurfum að útfæra það eitthvað. Í haust voru til skiptanna 105 milljónir, sem úthlutað var út frá umsóknum sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað. Ákvarðanir um styrkveitingu skulu byggðar á niðurstöðu faglegs mats á umsóknum. Þá er þetta orðinn svona samkeppnissjóður með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett hafa verið, eins og segir í reglugerð um sjóðinn. Þarna hefst kapphlaup um hver eigi bitastæðustu umsóknina byggða á ítarlegum gögnum um verkefnið sem sótt er um styrk til. Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fengu 34 millj. kr. og 70 millj. kr. fóru til Austfjarða. Mikil vinna liggur að baki umsókn og er ljóst að sveitarfélög geta ekki gert raunhæfa fjárhagsáætlun eða framkvæmdaáætlun með hliðsjón af starfsemi atvinnugreinarinnar eins og hægt er að gera út frá öðrum greinum sem stundaðar eru á svæðinu. Ný og öflug atvinnugrein skilar því ekki sem þarf til að samfélögin geti vaxið í réttum takti við starfsemina.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að útfærslan á fiskeldissjóði sé heppileg til að dreifa tekjum af fiskeldi á sveitarfélögin sem standa því næst. Í lok ræðu minnar vil ég þakka þau svör sem komu frá hæstv. ráðherra. Það er gott að verið sé að leggja áherslu á, og að þegar sé hafin vinna við það, þetta mjög mikilvæga verkefni. Ef grunninnviðir samfélaganna sem eru næst fiskeldinu fá ekki að vaxa þá er atvinnugreinin í hættu.