Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

gjaldtaka í sjókvíaeldi og skipting tekna til sveitarfélaga.

297. mál
[17:48]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góða umræðu. Það er rétt að það komi fram að að minni ósk hefur Ríkisendurskoðun samþykkt að fara í stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis, þannig að það liggur fyrir. Raunar býst ég við að þið heyrið það fyrst hér vegna þess að ég held að fréttatilkynningin um þá ákvörðun komi á morgun. Af því að hv. þingmaður er að velta sérstaklega fyrir sér fiskeldissjóðnum og hvernig fyrirkomulagið kemur til með að þróast þá erum við í raun og veru með þessa leiðsögn frá þinginu, frá lagasetningunni 2019, um það með hvaða hætti sé best að gera það. Ég tek eftir því þegar ég les umsagnir um það frumvarp á sínum tíma að það voru uppi vangaveltur um hvaða fyrirkomulag væri best í þeim efnum. Þar kom m.a. upp sú umræða að það færi betur á því að ráðstafa fjármagninu í gegnum jöfnunarsjóð með einhverju móti. Það er auðvitað ein leið. En ég held að það sé afar mikilvægt að samtalið um það hvernig þetta sé best gert sé við sveitarfélögin sjálf, að við förum yfir bæði reynsluna af þessu fyrirkomulagi eins og það er en ekki síður það sem hv. þingmaður nefnir hér í lokin og er svo mikilvægt, að við getum ekki horft til þess að greinin vaxi ef hún hefur ekki stuðning af öflugum innviðum. Það verður að vera og það er sama hvort við erum að tala um aðstöðu til slátrunar, hvort við erum að tala um hafnarmannvirki, hvort við erum að tala um vegasamgöngur o.s.frv., þetta verður allt að vera fyrir hendi til að greinin geti vaxið í sátt við umhverfið og við náttúruna. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr úttekt Ríkisendurskoðunar og síðan að fara í þá stefnumótun sem nauðsynleg er til lengri tíma.