152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það var eiginlega það síðasta sem ég bjóst við að þetta yrði orðræða ríkisstjórnarinnar um það hvernig ætti að bregðast við flóttamannavandanum frá Úkraínu. Ég bjóst við tilkynningu um það hvernig við myndum taka hjartanlega á móti þeim sem eru t.d. með tengsl við Ísland, myndum hjálpa þeim að tengjast fjölskyldum sínum þar og koma með þær hingað til Íslands. En þetta kemur í staðinn. Ég átta mig ekki á þessu, herra forseti, því að tíminn hérna á þingi er mikilvægur, tíminn í þingsal er mikilvægur og þess vegna skil ég ekki hvers vegna ríkisstjórnin kemur með svona útspil í stað þess að svara okkur strax: Hvernig á að bregðast við flóttamannavandanum frá Úkraínu? Ekki með því að segja: Við verðum nú fyrst að losa okkur við þá sem við erum með hérna áður en við getum tekið á móti einhverjum öðrum. Það finnst mér algjörlega óásættanlegt og við þurfum (Forseti hringir.) að fá betri svör frá ríkisstjórninni um það hvað á að gera sem fyrst því að vandinn er þess eðlis.