152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er nú oftast sem maður kemur upp undir þessum lið og kvartar yfir því að ríkisstjórnin komi ekki með mál inn en núna erum við sannarlega að tala um mál sem við viljum ekki fá inn. Það er full ástæða til að rifja aðeins upp þetta mál vegna þess að í aðdraganda kosninganna 2017 þá sammæltust allir flokkar sem þá sátu á þingi, formenn þeirra, um að það ætti að endurskoða útlendingalögin og sýna í þeim meiri mannúð. En Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa algjört dagskrárvald í þessum málaflokki og við erum búin að horfa upp á það núna síðustu daga og vikur hvernig hver atburðurinn rekur annan sem býr til mynstur sem við hljótum öll að sjá. Með ríkisborgararéttinn, með samningunum við Rauða krossinn og nú þetta. Það verður á ábyrgð Framsóknarflokks og Vinstri grænna ef þessi mál komast í gegn.