152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott svar. Það er mikilvægt að setja aukið fjármagn í þjálfun lögreglumanna og eftir atvikum ákærenda í þessum málaflokki og sérstaklega rannsakenda. Þessi mál krefjast ákveðinnar sérþekkingar og þetta eru mjög viðkvæm mál. Mér finnast áhrif norrænnar réttarþróunar á refsilög á Íslandi, hegningarlögin, mjög áhugaverð og einnig alþjóðleg áhrif, alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Við töluðum um peningaþvætti og breytingar á spillingarákvæði í síðasta mánuði og þau áhrif eru mjög mikilvæg. Brot er varða barnaníð, sérstaklega vörslu á myndefni, eru í eðli sínu líka alþjóðleg brot. Við lifum á tímum internetsins og annað slíkt. Ég spyr ráðherra beint: Er ekki líka mikilvægt að lögð sé áhersla á samvinnu, alþjóðasamvinnu, lögreglunnar við lögregluyfirvöld annars staðar á Norðurlöndum, sem hafa sérþekkingu á þessu, til að afla þekkingar frá öðrum ríkjum?