152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir.

10. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli fyrir máli sem yrði til mikilla hagsbóta fyrir allan almenning á Íslandi og, ef að líkum lætur, fyrir ríkissjóð líka. Það er tillaga til þingsályktunar um gjaldfrjálsar heilbrigðiskimanir, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að innleiða heilbrigðisskimun fyrir alla 40 ára og eldri á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra upplýsi Alþingi um framgang vinnu við innleiðingu heilbrigðisskimana á vorþingi 2022.“

Almennar heilbrigðisskimanir þar sem farið er yfir hina ýmsu þætti í heilsufari fólks hafa lengi tíðkast, ekki hvað síst hefur efnaðra fólk nýtt sér þetta og valdamenn víða um lönd eru reglulega sendir í slíka skimun. En við Íslendingar, ekki fjölmennari þjóð en við erum og vel stæð efnahagslega og með töluverða samkennd, ættum að vera í stakk búin til að veita öllum borgurum landsins slíka þjónustu. Kostnaðurinn við framkvæmdina myndi svo væntanlega skila sér til baka í bættri heilsu, m.a. með því að fyrr yrði hægt að grípa inn í þegar ástæða er til, en það er vel þekkt staðreynd að besta fjárfestingin í heilbrigðismálum eru forvarnir. Því fyrr sem hægt er að bregðast við, þeim mun ódýrara. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um líf og heilsu fólks, að bæta heilsu landsmanna og bjarga mannslífum. Við höfum sýnt það, Íslendingar, að við getum tekið okkur saman um stór verkefni, m.a. á sviði skimana og bólusetningar í kórónuveirufaraldrinum, sem gengu afskaplega vel fyrir sig og með almennri þátttöku. Auðvitað þekkjum við líka dæmi um skimanir sem ekki hafa gengið sem skyldi þar sem gallar í skipulagi heilbrigðiskerfisins hafa sett strik í reikninginn, eins og varðandi krabbameinsskimanir sem mikið hefur verið rætt að undanförnu. En við sjáum þó að þetta er hægt. Þetta er hægt með samtakamætti og góðu skipulagi og auðvitað með ákvörðuninni um að gera þetta. Það er grundvallaratriði.

Í forsætisráðherratíð minni stofnaði ég sérstakri ráðherranefnd um lýðheilsu. Það var vegna þess að ég leit svo á að þetta væri það mikilvægt atriði fyrir allt samfélagið að það kallaði á sérstaka nefnd ráðherra til að fylgja því eftir. Í heilbrigðisstefnu, sem nú hefur verið samþykkt til ársins 2030, er einmitt sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að fyrirbyggja sjúkdóma og lögð áhersla á bætta lýðheilsu og færð fyrir því rök að slíkt sé ekki aðeins mikilvægt út frá heilbrigðissjónarmiðum heldur líka hagkvæmt. Með almennum heilbrigðisskimunum þar sem fólk yrði boðað eða því boðið að koma í skimun á þriggja ára fresti fæst ekki aðeins aukið aðhald fyrir hvern og einn, sem hefur þá aukna hvata og áminningu um hvað betur mætti fara og hvernig megi vinna að því að bæta heilsu sína, heldur gefst þannig möguleiki á að grípa fyrr inn í þegar sjúkdómar eða aðrar heilsufarslegar hættur steðja að, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt og stundum spurning um líf og dauða.

Við, sem þetta fámenn, samheldin vel stæð þjóð, eigum að geta gert þetta fyrir alla landsmenn og með því bjargað mannslífum, lengt lífaldur Íslendinga og bætt líka lífskjör, líðan fólks með því að það fái betra tækifæri til að fylgjast með heilsu sinni, áminningu um hvað betur megi fara og möguleika á viðbrögðum í tæka tíð þegar þörf er á. Þetta fæli í sér alveg sérstaka heilsubót fyrir tekjulægra fólk sem hefur síður efni á því að kaupa slíka skimun sjálft, en það er þegar boðið upp á svona þjónustu á Íslandi. Og eins, af því að nú er oft vikið að mikilvægi þess að líta á annars vegar áhrif á karla og hins vegar konur þegar lögð eru fram frumvörp, má minna á það að karlmenn hafa reynst tregari til að leita til læknis eða eftir aðstoð en konur. Þar með væri þetta ekki hvað síst hvati fyrir þá. En auðvitað á þetta við um alla, óháð kyni og öllum öðrum þáttum nema jú, það er getið um aldur, 40 ára aldursviðmið, að þetta hefjist á þeim aldri. Það er ekki úr lausu lofti gripið. Þar höfum við litið til fordæma frá öðrum löndum þar sem fólk er fyrst og fremst hvatt til þess að fara í svona skimanir þegar það hefur náð þeim aldri, þegar það er komið á fimmtugsaldur. En þó höldum við þeim möguleika opnum, bendum sérstaklega á það, að ástæða sé til að gefa yngra fólki tækifæri til að leita eftir slíkri skimun ef tilefni þykir til og eins geti fólk óskað eftir því með samþykki læknis að vera kallað aukalega í skimun, þ.e. ekki bara á þriggja ára fresti heldur sé hægt að hafa þessar skimanir tíðari þegar sérstakar aðstæður kalla á að mati læknis.

Með þessu móti má ætla, m.a. í ljósi reynslunnar sem ég gat um hér áðan af vel skipulagðri skimunar- og bólusetningarherferð vegna kórónuveirufaraldursins, að mjög verulegur hluti þjóðarinnar vildi fylgjast betur með heilsufari sínu en nú er og að í mjög mörgum tilvikum yrði hægt að grípa inn í þegar þörf er á, fyrr en ella. Það getur falið í sér mjög verulegan sparnað svoleiðis að við erum ekki að leggja til hér aðgerð sem mun á endanum kosta skattgreiðendur mjög verulegar upphæðir, heldur kannski miklu frekar að spara peninga þótt aðalatriðið, eins og ég gat um áðan, sé auðvitað heilsa og líf fólks og að verja það.

Lagt er til að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að þeir sem uppfylla kröfur geti boðist til að veita þessa þjónustu. Það er með öðrum orðum ekki er gert ráð fyrir að ríkið sjálft taki þetta allt að sér þó að ríkið fjármagni það, en að menn geti boðið fram þessa þjónustu, uppfylli þeir ákveðin skilyrði, og sjúklingarnir geti valið hvert þeir fara. Ég segi sjúklingar, ég er reyndar að tala um allan almenning, þ.e. að þeir sem þiggja það að fara í skimanir geti valið hvar það er gert. Með þessu skapast auðvitað ný tækifæri í uppbyggingu á sviði heilbrigðisþjónustu á Íslandi; fleiri starfsmöguleikar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og hvati til þess að gera hlutina vel, að bjóða upp á þjónustu á föstu verði, því að ríkið greiðir fast verð, að bjóða upp á þessa þjónustu á því verði sem ríkið telur ásættanlegt en keppa um leið, vera í samkeppni um að veita góða þjónustu.

Ég sé fyrir mér að þetta víðfeðm aðgerð geti haft mjög mikil og jákvæð áhrif á sviði íslenskrar heilbrigðisþjónustu og haft þau áhrif að efla hana til muna. Þetta mál er því dálítið sérstakt að því leyti að það er jákvætt á allan hátt. Það mætti kannski velta því fyrir sér hvers vegna þetta hafi ekki verið gert fyrr, en nú er tíminn til að ráðast í þetta. Við höfum séð að þetta er hægt og ég held að það séu ekki margir sem hafa efasemdir um mikilvægi þess og gagnsemi og líklega gera flestir sér líka grein fyrir hagkvæmni þess að fylgjast betur með heilsu fólks og stuðla að aukinni lýðheilsu, svoleiðis að þetta er gott mál á allan hátt. Ég vona að það fái hraðan framgang í þinginu og að ráðherra og ráðuneyti geti hafist handa sem fyrst við útfærsluna. Ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnir vilji yfirleitt fá að leggja fram mál sjálfar og veigra sér við að samþykkja frumvörp sem koma frá öðrum. Þess vegna er þetta lagt hér fram í formi þingsályktunartillögu þar sem heilbrigðisráðherra er falið að klára útfærslur á þessu og leggja svo fram málið þegar það er tilbúið.

Að því sögðu legg ég til að þessi tillaga gangi til velferðarnefndar Alþingis.