152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir.

10. mál
[18:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni framsöguna. Þetta er gott mál í alla staði sem hér er mælt fyrir og er ég meðflutningsmaður á málinu. Það sem mig langaði að bæta við, til viðbótar við það sem kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, er stutt frásögn af grein sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar er rætt við Eirík Örn Arnarson, prófessor emerítus við læknadeild Háskóla Íslands, sem er jafnframt sérfræðingur í klínískri sálfræði, þar sem hann leggur til að skima fyrir þunglyndi á unglingastigi í grunnskóla og hjálpa ungmennum sem sýna einkenni að takast á við erfiðar hugsanir. Í greininni kemur fram hversu miklum árangri er hægt að ná með því að stíga snemma inn í þau vandamál sem eru að myndast á þessum mikla umbrotatíma í lífi hvers unglings. Þó að þetta sé afmarkaður þáttur sem fjallað er um í þessari tilteknu grein Eiríks Arnar þá er þetta auðvitað sama hugsunin og við förum hér fram með, þingmenn Miðflokksins, þ.e. að stíga fyrr inn í til að spara kostnað í heilbrigðiskerfinu á seinni stigum en auðvitað fyrst og fremst til þess að bæta líðan borgara þessa lands með því að auka líkur á því að hægt sé að komast fyrir alvarleg veikindi á seinni stigum með einfaldri greiningu og mögulega meðferð á frumstigum þess sjúkdóms sem um kann að ræða.

Mig langar örsnöggt að grípa niður í viðtalið við nefndan Eirík Örn Arnarson þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stigveldisaukning verður á geðlægð ungmenna í 9. bekk. Kynjamunurinn fer að koma fram en þunglyndi er helmingi algengara meðal stúlkna en drengja. Við 18 ára aldur er talið að um 15% ungmenna hafi lifað meiriháttar lotu geðlægðar.“

Það er auðvitað til mikils að vinna ef við náum að koma málum þannig fyrir á víðara sviði en því miður er þetta enn ekki framkvæmdin sem Eiríkur er að lýsa hér að væri skynsamleg. Í viðtalinu segir sömuleiðis, með leyfi forseta:

„Það er tilhneiging til að beina athyglinni að þeim sem eiga við vandamálin að stríða og reyna að hjálpa þeim en minni til að koma í veg fyrir að vandamálin grafi um sig.“

Þetta er akkúrat kjarninn í því sem hér um ræðir, að við reynum að einbeita okkur meira að því að stíga inn í snemma og fyrirbyggja, það eru forvarnir. Eiríkur Örn Arnarson talar um þetta út frá sálfræðinni og því að skima alla unglinga með það að markmiði að ná vonandi verulegum árangri í að fækka þeim sem verða fyrir alvarlegri geðlægð snemma á lífsleiðinni og þar með minnka verulega alvarlegar afleiðingar á seinni stigum máls. Það segir sömuleiðis, með leyfi forseta:

„Það kom í ljós við eftirfylgd ári eftir námskeiðið“ — námskeiðið er sem sagt það sem hópurinn var settur í sem hafði áður farið í gegnum skimun — „að þau sem sátu það ekki, samanburðarhópurinn, voru fimm sinnum líklegri til að hafa þróað með sér lotu geðlægðar á þessu eina ári en hin sem það sátu.“

Þau sem sátu ekki námskeiðið þar sem reynt hafði verið að grípa inn á fyrri stigum voru fimm sinnum líklegri til þess að þróa með sér lotu geðlægðar. Þetta segir okkur bara að það er til mikils að vinna ef þetta eru niðurstöðurnar sem koma úr svona afmarkaðri tilraun á hóp sem er auðvitað þeirrar gerðar að á einhverjum tímapunkti fara allir landsmenn, eða þeir sem ná aldri, í gegnum þennan hluta lífsleiðarinnar. Ef það væri raunhæft að ná jafn miklum árangri og þarna er lýst er borðleggjandi, ef hægt er að yfirfæra nálgunina á fleiri þætti heilbrigðiskerfisins, að ganga til þess verks.

Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að leggja málið fram og að ég fái að vera meðflutningsmaður á því. Ég held að málið sé þeirrar gerðar að ef það klárast ekki núna þá mun það klárast næst og þá verður ríkisstjórnin að fá tækifæri til að leggja það fram í eigin nafni eða vinna að framkvæmdinni eins og hér er lagt til því að það er alveg sama hvort horft er til þess fjárhagslega, og þá sérstaklega hvað langtímafjárhagshagsmuni ríkis og fyrirtækja og heimila landsins varðar, eða hvort horft er til heilbrigðis landsmanna, þetta mál, verði það að veruleika, mun margborga sig fyrir land og þjóð.