152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

afnám vasapeningafyrirkomulags.

47. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um afnám vasapeningafyrirkomulags, ekki í fyrsta, ekki annað, ekki í þriðja — í fjórða sinn. Með mér á málinu eru hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra, fyrir árslok 2022, sem tryggi afnám svokallaðs vasapeningafyrirkomulags og að lífeyrisþegi sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili haldi óskertum lífeyris- og bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið frumvarpsins verði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfræðis.“

Er það ekki með ólíkindum, virðulegi forseti, að þegar við erum komin á endastöð og erum á síðasta æviskeiði okkar, æviskeiði sem á að vera uppskeruhátíð okkar eftir að hafa unnið og lagt okkar til samfélagsins, að við skulum ekki fá að halda reisn? Það er enginn að tala um þá sem eru komnir með heilabilun, Alzheimer eða eitthvað, og geta í rauninni ekki séð um sín fjármál sjálfir. Þeir eiga samt sem áður aðstandendur og aðra sem gætu hugsanlega aðstoðað þá við að greiða það sem þeim ber miðað við þá þjónustu sem þeir sækja til hjúkrunarheimila eða dvalarheimila. Það hlýtur að vera hægt að sjá kaldhæðnina í því að vera kominn á efri ár, uppskerutíma ævinnar, og þurfa að biðja um peningana sína í formi ölmusu eins og maður sé unglingur eða smákrakki heima hjá pabba og mömmu að biðja um vasapening. Þetta er vægast sagt alger lítilsvirðing við eldra fólk. Og ég leyfi mér að spyrja: Hvernig stendur á því að ég er að mæla fyrir málinu hér í fjórða sinn? Það ætti öllum að vera ljóst að þetta er sanngirnis- og réttlætismál og það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það er algerlega bannað að ráðast svoleiðis að manni, þó að maður þurfi að nýta sér opinbert búsetuúrræði eða búsetuúrræði hjá einkaaðilum, að maður eigi að vera sviptur bæði sjálfræði og fjárræði með þessu móti, hendandi í mann einhverjum 70.000 kr. ríflega á mánuði: Og gerðu bara við þetta það sem þú vilt, sjáðu til. Þú færð ekki meira hér, ágæti eldri borgari sem þarft að nota hér þjónustu.

Virðulegi forseti. Við í Flokki fólksins höfum ímugust á svona framkomu við fólk, bara algerlega. Við tölum ítrekað um mannréttindi og allt það sem tjáir að nefna af því. En hvar eru mannréttindi eldri borgara þegar ævistarfið þeirra er tekið og greiðslurnar sem þeir fá, hvort heldur það eru launin þeirra eða frá almannatryggingakerfinu, hvað annað sem er, og þeir fá vasapeninga á gamals aldri?

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu kemur einmitt fram að við erum búin að mæla fyrir þessu og ég hef mælt fyrir þessu máli þrjú undangengin ár, hugsa sér, á síðasta kjörtímabili. Mig langar að segja, með leyfi forseta, að Landssamband eldri borgara hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þannig að eldri borgarar haldi sjálfstæði sínu og fjárhagslegu sjálfstæði óháð heimilisfesti.

Í IV. kafla laganna er fjallað um kostnað við öldrunarþjónustu. Þar er einnig fjallað um þátttöku heimilismanna dvalarheimila í greiðslu þess kostnaðar. Þegar einstaklingur flytur inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur réttur viðkomandi til ellilífeyris niður. Hann þarf einnig að greiða fyrir dvöl sína ef tekjur eru yfir 107.165 kr. á mánuði eftir skatta. Ef tekjur einstaklingsins skyldu nú rjúka algerlega upp í 128.512 kr. á mánuði þá getur hann átt rétt á ráðstöfunarfé eða vasapeningum sem á árinu sem nýlega er gengið í garð, árinu 2022, eru að hámarki 83.533 kr. Heyr, heyr, eldri borgari sem ert búinn að vinna, eyða allri ævinni í að vinna, erja jörðina og skila til okkar samfélags, sem við ættum öll að geta, eiga og mega vera stolt af. Er það virkilega svo að þetta sé þakklætið sem stjórnvöld senda þessu fullorðna fólki? Er þetta öll virðingin, virðulegi forseti, fyrir fullorðna fólkinu okkar, pabba og mömmu, afa, ömmu? Ég skammast mín fyrir stjórnvöld sem koma svona fram. Það er ekki hægt að gera neitt annað, virðulegi forseti.

Kostnaðarþátttaka er umtalsverð þegar fólk er komið á dvalar- og hjúkrunarheimili og margir verða af nær öllum sínum tekjum þegar ellilífeyririnn fellur niður. Afleiðingin er sú að fólk þarf í flestum tilvikum að láta vasapeningana, þessar 83.000 kr. á mánuði, duga fyrir öllum öðrum útgjöldum, öllum sínum útgjöldum.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem tryggi sjálfræði og fjárræði aldraðra einstaklinga þegar þeir fara inn á hjúkrunarheimili og að greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að íbúar haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir húsaleigu, mat og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Almennar reglur um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilunum verði þó óbreyttar. Gert verði ráð fyrir að íbúar geti átt rétt á húsnæðisbótum og kostnaðarþátttaka einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum verði tekjutengd og falli niður hjá þeim sem hafi lágar tekjur.

Flokkur fólksins hefur ítrekað kallað eftir þessu. Hættið að skattleggja fátækt. Hættið að skattleggja og skerða fólk sem á í erfiðleikum og nær margt hvert ekki endum saman. Hvers lags samfélag er það sem við lifum í þegar sagt er: Jú, við erum ein af tíu ríkustu þjóðum í heimi en við skulum samt skattleggja fátækt. Við skulum samt múra fólk inni í fátæktargildrum. Við skulum samt vera vanþakklát fyrir það sem þau hafa lagt til málanna í gegnum ævistarfið. Við skulum refsa þeim fyrir að vera gömul. Eru þetta skilaboðin, virðulegi forseti? Ég segi já. Skilaboðin eru skýr vegna þess að í rauninni liggja fyrir rannsóknir sem hafa verið gerðar á því hvernig fólk breytist í sínu atferli inni á hjúkrunar- eða dvalarheimilum þegar það fær að halda sjálfstæði sínu og reisn, þegar það þarf sjálft að ákveða hvernig það fer að því að borga fyrir sig og sinna sínum skyldum eins og það hefur gert í gegnum allt lífið.

Árið 1989 fékk Halldór Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík, leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að breyta hluta Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík, í verndaðar þjónustuíbúðir. Halldór skrifaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins og stjórnar Dalbæjar í október 1990, nokkrum mánuðum eftir að tilraunaverkefninu lauk. Tilrauninni var ætlað að gefa öldruðum kost á að halda fjárhagslegu sjálfstæði. Sem sagt, virðulegi forseti: Halda reisn, halda áfram að vera sjálfráða, fjárráða og stolt. Fjórir karlar og fjórar konur tóku þátt í tilrauninni og niðurstöðurnar voru að þátttakendur í tilrauninni sýndu aukna virkni, félagslífið jókst og ferðir út í bæ urðu fleiri. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og hafi alið af sér ótímabæra hrörnun einstaklinga.

Hvað er það, virðulegi forseti, sem er verra en að hafa ekki lengur tilgang eða löngun til að taka þátt? Hversu erfitt er að vera amma, afi, langamma, langafi og geta ekki vegna örbirgðar, vegna þess að búið er að taka allt af manni og maður hefur ekki fjárhagslegt sjálfstæði, hvað þá burði til þess, vegna þess að maður er skattlagður í fátækt — hvaða reisn er það og hvers lags líðan er það hjá eldra fólki sem hefur ekki ráð á því að gleðja barnabörnin sín, gleðja börnin sín, taka þátt? Við erum öll gjafmild. Við viljum fá að gefa jólagjafir. Við gleðjumst yfir að fá að gefa afmælisgjafir. Það er tilgangur í tilverunni okkar að fá að gefa af okkur og fá að gleðja aðra. En hugsa sér hvernig mörgu hverju fullorðna fólki er gjörsamlega meinað það með því að múra það svo rækilega inn að það fær rúmar 80.000 kr. á mánuði í vasapeninga eins og hver annar smákrakki heima hjá pabba og mömmu.

Starfshópur um afnám vasapeningafyrirkomulagsins var skipaður í maí 2016, sem sagt fyrir rétt nær sex árum síðan, af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, en hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum. Ja hérna, ætli þetta sé eini starfshópurinn sem er hangandi yfir einhverju í sex ár án þess að skila nokkrum sköpuðum hlut af sér? Nei, ég leyfi mér að efast um það. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2018 um afrakstur starfshópsins kom fram að vinna hópsins — taktu nú eftir, virðulegi forseti, við skulum taka eftir því hvað kom fram þarna árið 2018 — væri enn á undirbúningsstigi.

Afnám vasapeningafyrirkomulagsins hefur verið á döfinni í mörg ár án þess að þær hugmyndir hafi skilað sér í neinu handföstu. Árið 1990 var sambærilegu fyrirkomulagi í Danmörku breytt. Lífeyris- og bótaþegar sem bjuggu á stofnunum héldu sínum tekjum en borguðu fyrir sig. Það hafði ekki endilega í för með sér að þeir hefðu meira fé handa á milli, eðli málsins samkvæmt þá gera þeir það ekki neitt, en það þýddi að þeir höfðu fjárhagslegt sjálfstæði. Þeir héldu sinni reisn.

Með þessari þingsályktunartillögu er því beint til félags- og vinnumarkaðsráðherra að endurskoða strax vasapeningafyrirkomulagið þannig að aldraðir haldi sjálfræði inni á stofnunum í eins ríkum mæli og kostur er svo að sem minnstar breytingar verði á högum fólks og háttum þegar það þarf á breyttu búsetuúrræði að halda.

Virðulegi forseti. Við vitum öll að það er nógu erfitt þegar við erum komin á þann stað í lífinu að við þurfum að viðurkenna vanmátt okkar gagnvart því að búa ein, að við getum í rauninni ekki lengur verið ein, þurfum að leita aðstoðar annað og við þurfum að leita í ný búsetuúrræði. Það er alveg nógu erfiður þröskuldur að stíga yfir. Það tekur margt fullorðið fólk langan tíma að stíga yfir þann þröskuld.

Virðulegi forseti. Ég vona að við í Flokki fólksins þurfum ekki að mæla aftur fyrir þessu einfalda sanngirnismáli sem eldri borgarar hafa kallað eftir árum saman og talað fyrir dauðum daufum eyrum. Hérna varð mér smá fótaskortur á tungunni, virðulegi forseti. Ég var næstum því búin að segja „fyrir dauðum eyrum“ en ég held að það geti alveg átt jafn vel við og „daufum eyrum“ í þessu tilviki því að það er bara eins og þessi rómur heyrist ekki. Þeim er bara alveg nákvæmlega sama. Ég vona að gamla góða ríkisstjórnin, sem var hér á síðasta kjörtímabili og virðist sitja enn, sé komin með heyrnartæki og heyri vel ákall úti í samfélaginu og réttlætiskallið eftir því að fólk sem þarf að nýta sér búsetuúrræði annars staðar en heima sé ekki svipt sjálfstæði sínu, fjárræði sínu, og geti þar af leiðandi verið mun virkara í félagsstarfi og félagslífi af því að þá líður því svo miklu betur.

Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að vísa þessu máli til hv. velferðarnefndar.