152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það hefur ríkt mikil samstaða hér á Alþingi og almennt á Vesturlöndum um fordæmingu innrásar Rússlands í Úkraínu. En það er mikilvægt að ræða viðbrögð og aðgerðir og hvernig þeim verði best háttað, hvernig við bregðumst við stríðinu og afleiðingum þess og jafnvel breyttri heimsmynd til langs tíma. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að veita eins mikla neyðaraðstoð og hægt er, senda hana beint til Úkraínu og bregðast við miklum straumi flóttamanna. En það er rétt sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur að nokkru leyti bent á, að flóttamannakerfið hér og reyndar miklu víðar, starfar ekki sem skyldi, kerfi sem var hannað eftir seinni heimsstyrjöld til að takast á við tímabundin stríð og afleiðingar þeirra, ekki hvað síst í nágrannalöndunum, og hefur ekki lagað sig að breyttum heimi á 21. öldinni.

Nú þegar við horfum fram á mesta fjölda flóttamanna í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar kallar það á hröð og afgerandi viðbrögð. Við þurfum að taka á móti flóttamönnum á Íslandi en við þurfum líka að aðstoða í nágrannalöndum Úkraínu, þeim löndum sem fólk þaðan leitar til í miklum mæli. Nú hafa um 350.000 manns flóttamenn farið yfir landamærin til Póllands. Menn geta rétt ímyndað sér hvort það sé ekki álag að taka á móti fjölda sem samsvarar allri íslensku þjóðinni á fáeinum dögum. Íslensk stjórnvöld ættu því að hugleiða að veita beinan styrk til þessara ríkja hvað varðar til að mynda húsnæði og aðrar nauðsynjar. Kostnaðurinn við að leigja eða kaupa íbúð í Póllandi er fjórðungur eða þriðjungur af því sem hann er á Íslandi og með slíkum stuðningi geta íslensk stjórnvöld veitt mikinn stuðning hlutfallslega.

Stjórnvöld þurfa líka að tala skýrt um þátttöku í varnarsamstarfi Vesturlanda, senda skýr skilaboð. Þar dugar ekki að vísa í óljóst orðalag stjórnarsáttmála. Við þurfum að vita hvernig stjórnvöld munu taka fyrirsjáanlegri beiðni NATO um aukin umsvif hér á landi og aðrar ráðstafanir sem fylgja þessari breyttu heimsmynd sem við horfum nú fram á og væri gott ef ráðherra yrði afdráttarlaus um það. Einnig væri gott að heyra mat hæstv. ráðherra á því hvaða viðbótarráðstafanir eru nauðsynlegar á sviði netvarna og í öðrum tæknilegum vörnum. Við þurfum líka að huga að orkumálum. Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gærkvöldi að þarlend stjórnvöld myndu losa um verulegar varabirgðir af olíu til að bregðast við ástandinu. En við þurfum að vera okkur sjálfum betur nóg um orku hér á Vesturlöndum og þar á Ísland líka að leggja sitt af mörkum. Það kom fram í Morgunblaðinu í dag að háskólinn í Helsinki segði að rússnesk stjórnvöld hefðu varið 95 milljónum dollara í að styrkja samtök sem berjast gegn vinnslu gass og olíu í Evrópu.

Það er mikilvægt að þingið verði upplýst og taki þátt í umræðu um aðgerðir sem gripið verður til vegna innrásarinnar en um þær aðgerðir hefur að langmestu leyti verið samstaða. Það er helst að maður velti fyrir sér hvort það sé rétt að loka á rússneska fjölmiðla. Ég hallast að því að það væri betra að við á Vesturlöndum getum sagt það að hér leyfum við frjálsa umræðu, líka ruglið, á meðan í Rússlandi er verið að loka fyrir ákveðna fjölmiðla. Ég held að við getum treyst borgurum okkar til að meta hvað er rétt og rangt. Við eigum að standa vörð um frelsið því að það sem borgarar Úkraínu eru nú að gera er að verja frelsið, verja rétt þjóða til að hafa sín landamæri og stjórna sér sjálfar og það þurfum við að gera hér á Vesturlöndum líka. Við þurfum að minnast þess hvað skilaði okkur þeim árangri sem við höfum náð og vera reiðubúin til að verja það.