152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það eru þung skref að stíga í ræðustólinn okkar í dag og ræða það hörmungarástand sem upp er komið í Úkraínu. Hvern hefði órað fyrir því að fyrirsagnir blaðanna væru: Ef þið streitist á móti þurrkum við bara bæinn ykkar út með stórskotaliði? Hver hefði getað trúað því að einn æðsti leiðtogi heimsins, einræðisherrann sjálfur, Vladimír Pútín, segði: Ég er bara að aðstoða Úkraínumenn og reyna að losa þá undan ofurstjórn dópista og nasista. Hér er hann að tala um forseta Úkraínu sem er gyðingur. Þetta eru skilaboðin, virðulegur forseti, sem þessi maður, sem greinilega er a.m.k. ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, er að færa sinni þjóð. Við megum aldrei nokkurn tíma fordæma þjóðina sjálfa, fordæma Rússana sjálfa vegna þess að þeir fyrirlíta þær aðgerðir sem forseti þeirra er að framkvæma í dag. Hann er að ráðast gegn öllu því sem við þekkjum; frelsi okkar, lífi okkar og öllu því sem við höfum þekkt frá síðari heimsstyrjöld, öllu því sem við höfum reynt að byggja upp til að vernda og halda frið. Aldrei nokkurn tímann frá seinni heimsstyrjöld höfum við horfst í augu við aðra eins ógn og við gerum í dag og það út af einum einasta einstaklingi sem í rauninni hlýtur að vera nánast viti sínu fjær.

Virðulegi forseti. Ég segi og hvet ykkur öll: Við skulum ekki bara opna huga okkar og hjarta, við skulum ekki bara senda hvatningu og allt sem við getum til Úkraínu, við skulum líka opna heimili okkar hér ef þeir þurfa á því að halda. Það skiptir engu máli hvað við eigum margar íbúðir eða hvernig staðan er hér heima, við eigum alltaf meira en nóg fyrir þá sem þurfa á okkur að halda. Ég segi bara: Ég hvet okkur áfram. Það er sameinuð Evrópa, mun sameinaðri en þessi einstaklingur, Vladimír Pútín, hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Hann trúði því að við ættum ekki þessa samheldni sem við eigum, hann trúði því (Forseti hringir.) að Evrópa væri í rauninni sundruð. Ég segi að lokum, virðulegi forseti: Hvar værum við stödd án NATO í dag?