152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Sem fyrrum hjálparstarfsmaður langar mig að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa strax sett pening af stað til mannúðaraðstoðar. Það skiptir nefnilega máli að taka ákvarðanir hratt þegar hlutirnir gerast.

Mig langar líka að þakka hæstv. ráðherra fyrir að tilkynna hér í ræðustól um aukið fjármagn til mannúðarmála og mig langar að tala um mannúðarmálin. Við þurfum nefnilega að vinna á mörgum stöðum, ég ætla ekki að nota orðið vígstöðvum, en á mörgum stöðum þegar kemur að því að hjálpa fólkinu sem er fast innan Úkraínu, í kjöllurum og á öðrum stöðum, og við þurfum að nýta diplómatískar leiðir til að þrýsta á það að aðgengi hjálparsamtaka með mat og hjálpargögn til þessara aðila sé virt. Við þurfum líka að taka virkan þátt í að styðja við þá aðstoð sem fólk fær á landamærum Úkraínu, sér í lagi í löndum sem sjálf standa illa efnahagslega. Þar getur fjármagn, mannskapur og margvísleg hjálpargögn verið leiðir til þess að styðja. Flóttamenn og hælisleitendur frá Úkraínu eru þegar farnir að streyma til landsins og við þurfum alvarlega að íhuga hvernig við tökum á þessu og má þá m.a. íhuga það að virkja síðustu málsgrein 49. gr. laga um útlendinga til að einfalda komu þeirra hingað til lands.

Að lokum þurfum við að vinna saman á sem breiðustum grunni sem þjóðfélag til að taka á móti fólki (Forseti hringir.) á flótta frá stríði. Gleymum því ekki að nú erum við öll orðin Úkraínubúar.