152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum að sjá hrikalegan harmleik á hverjum einasta degi þar sem Pútín stýrir her sínum í árás á Úkraínu þar sem saklausir borgarar, skólar og spítalar eru skotmörk. Enn meiri hörmungar eru í uppsiglingu fyrir Úkraínu og íbúar landsins bíða milli vonar og ótta eftir því. Hver borgin af annarri fellur í hendur innrásarherja þrátt fyrir hetjulegar varnir Úkraínumanna. Ég sagði hér í gær að það væri aðdáunarvert að sjá þá miklu samstöðu sem er á alþjóðavettvangi með úkraínsku þjóðinni og gegn ólöglegri innrás Rússa í Úkraínu. Ég vil líka hrósa forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem hafa fordæmt innrásina og sagt að allra leiða verði leitað til að vopnahlé náist og að Ísland verði að fullu með í skýrari efnahagsþvingunum gegn öðru ríki og stjórnmálaleiðtogum en nokkru sinni. Ég vil líka hrósa íslenskum þingmönnum og stjórnmálaflokkum sem hafa verið einhuga í fordæmingu sinni á hernað Rússa. Máttur alþjóðlegrar samstöðu er að sýna sig. Viðlíka samstaða er því miður sjaldgæf en ótrúlega nauðsynleg á tímum þegar eitt helsta og sterkasta hernaðarveldi í heimi er að ráðast inn í ríki sem hefur ekki nándar nærri sömu burði á hernaðarsviðinu. Það er líka ótrúlega nauðsynlegt að nýta sér ekki þessa hörmulegu innrás í pólitískum tilgangi, í pólitískum leikjum. Pólitísk afstaða stjórnmálaflokka á Íslandi til Norður-Atlantshafsbandalagsins er ekki það sem skiptir mestu máli núna á sjöunda degi innrásar Rússa inn í sjálfstæða Úkraínu eins og verið er að reyna að draga fram hér. Það sem skiptir mestu máli núna er að viðhalda samstöðunni milli ólíkra stjórnmálaflokka í því að fordæma ólöglega innrás Rússa á saklausa borgara í Úkraínu og að við sem sjálfstætt herlaust ríki sýnum eindreginn vilja til vopnahlés strax, að við tölum fyrir friði, mannréttindum, lögum og reglum og sendum skýr skilaboð um að við Íslendingar tökum af öllu afli þátt í hörðum efnahagslegum aðgerðum gagnvart Rússlandi (Forseti hringir.) vegna árásarinnar og pólitískri útilokun Rússa á alþjóðavettvangi. (Forseti hringir.) Við þurfum líka að vera tilbúin til að setja meiri fjármuni í mannúðaraðstoð og opna landamæri okkar gagnvart Úkraínubúum á flótta líkt og gagnvart öðru fólki sem til okkar leitar eftir alþjóðlegri vernd.