152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:32]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Hér hefur verið góð og mikilvæg umræða í dag. Við á Íslandi eigum að tala fyrir mannúð og þrýsta á alla aðila í þágu friðar. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra og einnig hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að Ísland mun bregðast við stærstu mannúðarkrísu síðustu áratuga í Evrópu og veita skjól. Flóttamannanefnd vinnur nú að því verkefni að undirbúa komu fólks hingað til lands. Ástandið í Úkraínu er hreint út sagt hræðilegt og þar verður að komast á friður sem allra fyrst. Okkur þingmönnum berst nú fjölda pósta og skilaboða frá einstaklingum og félagasamtökum og fyrirtækjum sem vilja með einum eða öðrum hætti standa með og hjálpa til. Íslensk þjóð sameinast í því að vilja standa vörð um mannúð og frið. Það er mikilvægt að sú samstaða og einhugur sem við höfum séð og heyrt, einnig hér inni í þingsal, haldi áfram að berast út á við til almennings á Íslandi sem og til Úkraínu og Rússlands.