152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Aukinn styrkur Vesturlanda og möguleikar okkar á að aðstoða við þessar aðstæður og sambærilegar aðstæður ef þær koma aftur upp, sem við vonum auðvitað að verði ekki, byggir á þeim grunngildum lýðræðis að við ræðum hlutina eins og þeir eru, tökumst jafnvel á um bestu leiðirnar. Það getur komið til þess að við þurfum hér að ræða hvaða leiðir eru bestar til að ná sem mestum árangri við að hjálpa Úkraínumönnum og hvaða leiðir eru raunverulega bestar til að koma á friði.

Til að mynda er mjög mikilvægt og ánægjulegt að heyra að tekið hafi verið undir það hér í umræðunni að við gleymum ekki mikilvægi aðstoðarinnar í nærumhverfinu. Því að oft og tíðum hefur það gleymst, til að mynda varðandi hjálp og aðstoð við Líbanon, sem hefur tekist á við gríðarlega mikinn flóttamannavanda en verið að mínu mati vanrækt af stjórnvöldum á Vesturlöndum, hugsanlega vegna þess að aðstoð þar er ekki eins sýnileg eins og aðstoð í nærumhverfinu. Vegna þess að þetta þarf allt að haldast í hendur, að við getum tekið á móti fólki hér á Íslandi en gleymum þó ekki mikilvægi þess að koma að gagni þar sem það er kannski ekki eins sýnilegt. Og að við nálgumst þetta gríðarlega stóra og erfiða viðfangsefni út frá staðreyndum málsins og leyfum okkur jafnvel að rökræða hvaða leiðir eru bestar til að geta fundið árangursríkustu aðferðirnar til að hjálpa.