152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar, það á bara að kveikja í þessu og henda þessu á haugana og nota það sem orku til að gera betur. Ég vann við það að búa til kerfi, forrit t.d., það er bara kerfi, og þegar maður kemur að einhverju sem er orðið gjörsamlega ónothæft og óskiljanlegt þá fer rosalega mikil vinna í að reyna að laga það, miklu meiri vinna en það kostar að byrja upp á nýtt. Þegar við vitum hvað við viljum, hvernig við viljum hafa kerfin, þá er erfiðara að kreista það út úr einhverju sem byggðist upp á allt öðrum forsendum til að byrja með og var síðan plástrað aftur og aftur til að reyna að ná nýjum viðmiðum. En undirliggjandi er sama gallaða hugsunin og var til staðar þegar kerfið var búið til. Það þýðir ekki endilega að kerfið hafi verið gallað þegar það var búið til heldur að aðstæður hafa breyst á þann hátt að það er orðið úrelt. Það er mjög eðlilegt.

Ég lendi rosalega oft í því að fólk fer í vörn fyrir kerfin af því að það bjó þau til, af því að einhverjir stjórnmálaflokkar bjuggu þau til. Þetta er svo æðislegt kerfi. Það má ekki breyta því. Það verður bara að halda því og stagbæta það og þá verður það frábært. Í staðinn fyrir að viðurkenna: Já, það var frábært þegar við bjuggum það til en aðstæður breyttust sem gerðu það ónýtt og nú þurfum við bara að gera nýtt kerfi. Þetta er kannski það sem hæstv. félagsmálaráðherra er að fara að stússast í, ég hef ekki hugmynd um það. Það hefur aldrei komið neitt skýrt svar um það hvernig á að endurskoða kerfið, hvort einungis á að laga það eða hvort á að stokka það upp á nýtt. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að það komi eitthvað fljótlega sem er nálægt því að útskýra fyrir okkur hver hugsunin er sem býr að baki. En þangað til skulum við reyna að gera það besta við það sem við höfum.