152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:15]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessa frumvarps til laga um breytingar á lögum um félagslega aðstoð, varðandi heimilisuppbót. Ég sagði í máli sem var flutt hér áðan að átthagafjötrar væru þar að verki. Ég minntist á það, í umræðum um mál sem var flutt hér í gær, að kerfið væri mannfjandsamlegt, Tryggingastofnun. Hér er um að ræða mál sem snýr að baráttu gegn kerfinu og snýr að breytingum á lögum um félagslega aðstoð sem eru beinlínis fjandsamleg fjölskyldunni, grunneiningu samfélagsins. Gildandi löggjöf á þessu sviði brýtur niður fjölskyldur sem ekki ná endum saman án þeirrar framfærslu sem heimilisuppbótin er. Lífeyrisþegar eru þeir sem búa hvað bágast í landinu og þeir eru ekki virkir í samfélaginu, þeir búa við einangrun. Sú einangrun eykst enn þegar barn fer af heimilinu. Og það að verið sé að taka heimilisuppbótina af, þegar barn flyst að heiman, og það sé ekki gert fyrr en núna — þetta frumvarp mun leiða til þess að það verði ekki fyrr en barn hefur náð 21 árs aldri. Hvernig er hægt að halda því fram að fjárhagslegt hagræði sé af því að hafa barn á heimilinu sem er kannski 18 ára og í skóla? Allir sem búa á Íslandi vita að fjölskyldutengsl eru sterk á Íslandi. Börn eru lengur heima hjá sér hér en annars staðar í hinum vestræna heimi, t.d. í Skandinavíu þar sem ég þekki til. Við erum kannski miklu líkari Ítalíu hvað þetta varðar. En það er algjört hneyksli að við séum með kerfi sem leiðir til þess að margir foreldrar, sem eru lífeyrisþegar, þurfi hreinlega að vísa börnum sínum á dyr til að missa ekki heimilisuppbótina. Núverandi kerfi vinnur gegn fjölskyldum lífeyrisþega, samheldninni sem þar er, og það eykur einangrunina hjá lífeyrisþegum að börn þurfi að flytja að heiman við 18 ára aldur.

Einmanaleiki er mikið vandamál í heiminum og sérstaklega í hinum vestræna heimi. Ég get tekið sem dæmi að í Bretlandi hefur verið stofnað sérstakt ráðuneyti til að berjast gegn einmanaleika. Það má beinlínis segja að það gangi gegn friðhelgi fjölskyldunnar og heimilisins, eins og kemur fram í frumvarpinu, að lífeyrisþegar skuli þurfa að vísa börnum sínum af heimilinu. Löggjafanum ber svo sannarlega að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Það er verið að skerða hana með þessum hætti, með því að mismuna fjölskyldum á ýmsa vegu. Það gengur einfaldlega alls ekki upp að fjölskyldur lífeyrisþega þurfi að vísa börnum sínum af heimilinu við 18 ára aldur vegna tekjumissis.

Það má líka benda á að í frumvarpinu er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 21 árs aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í fullu námi. Hér er því einungis verið að leggja til að heimilisuppbót skerðist ekki fyrr en við 21 árs aldur óháð því hvort barn sé í námi, svo að það komi skýrt fram. Reglan í 2. mgr. frumvarpsins lýtur að því að foreldrar einstaklings sem er á aldrinum 20–25 ára og stundar fullt skólanám eða starfsþjálfun teljast ekki heldur hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Þetta er sjálfsögð regla. Það eru margir einstaklingar, örugglega flestir Íslendingar á aldrinum 21–25 ára, sem búa heima hjá foreldrum sínum og miðað við húsnæðisverð í dag eru engar líkur á því að einstaklingar á þessum aldri sjái sér fært að kaupa húsnæði og koma undir sig fótunum sjálfstætt. Þetta er yfirleitt fátækasti þjóðfélagshópurinn, lífeyrisþegar, og það gengur einfaldlega alls ekki upp að heimilisuppbót skuli vera skert þegar barn nær 18 ára aldri, og ekki tekið tillit til þess þegar börnin eru í námi. Þetta er sjálfsagt mál og myndi sýna fram á að stjórnvöld, almannatryggingar, velferðarsamfélagið, líta á sterk fjölskyldutengsl sem mikilvægan hlut, ekki síst hjá lífeyrisþegum.