152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann orðaði það einhvern veginn þannig áðan að þetta væri fjandsamlegt kerfi og að almannatryggingakerfið þjónaði ekki skjólstæðingum sínum. Mig langar að spyrja hann mjög einfaldrar spurningar. Nú hefur Flokkur fólksins lagt þetta frumvarp fram til að bæta velferðarkerfið. Við vorum með mál áðan sem lýtur að því að laga smáhnökra á almannatryggingakerfinu varðandi greiðslur til lífeyrisþega sem búa erlendis. Þetta eru brotalamir, það sem má betur fara, og ekkert risamál. Þetta er smámál í stóra samhengi ríkisvaldsins og stóra samhengi fjárlaga og reksturs ríkisins. En þetta er stórmál fyrir lífeyrisþegana. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því eða skýringu hvernig á því stendur að verið er að flytja mál hér í fjórða og fimmta sinn, tvisvar til þrisvar sinnum sömu málin, sem lúta að því að bæta velferðarkerfið lítillega? Hér eru þingmenn sem eru öryrkjar sjálfir, hafa verið bótaþegar og hafa upplýsingar um og þekkingu á kerfinu sem aðrir þingmenn hafa ekki, og vilja bæta kerfið. Hvernig stendur á því að þessi mál renna ekki í gegnum nefndir og eru ekki samþykkt á Alþingi?