152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Bara örstutt: Er þetta þá þannig að ef hv. þingmaður hefði komið bogfimimálinu sínu í gegn þá hefði hann fengið heiðurinn af því og geta unnið næstu kosningar og þingmeirihluti fallið? (BLG: Eitthvað svoleiðis.) Er þá raunverulega best fyrir okkur í Flokki fólksins, sem viljum endurbæta almannatryggingakerfið með málunum okkar, að gauka þeim að meiri hlutanum þannig að hann eigni sér heiðurinn? Væri þá mál okkar, um millifærslu á erlenda reikninga lífeyrisþega úti í heimi, betur komið hjá einhverjum stjórnarþingmanni eða ríkisstjórn svo að Flokkur fólksins gæti ekki sagt í næstu kosningabaráttu: Heyrðu, við redduðum ykkur því að þið þurfið ekki að borga fyrir millifærslu erlendis? Gæti hinn stórkostlegi heiður af því máli orðið til þess að stjórnarmeirihlutinn myndi falla? En gæti stjórnarmeirihlutinn ekki einfaldlega sagt: Við studdum það góða mál, kjósið okkur áfram? Er þetta dýnamíkin, svo að ég skilji hana rétt? Ég hef ekki kynnt mér bogfimimál hv. þingmanns en það er aldrei að vita nema ég styddi það. (Gripið fram í.) En ég er bara að reyna að skilja það sem nýr þingmaður að það skipti engu máli hversu góð þingmannamálin eru, svo lengi sem þau koma ekki frá rétta aðilanum, þ.e. stjórnarmeirihlutanum, meiri hluta þingsins, þá fá þau ekki framgang. Ég tók eftir því í fyrri umræðu að talað var um mál sem nú er komið inn í stjórnarsáttmála, hvort það var um Mannréttindastofnun eða eitthvað slíkt. Næstu kosningar þurfa sem sagt að eiga sér stað, málið gæti komið í næsta stjórnarsáttmála, þ.e. að Tryggingastofnun eigi að greiða fyrir erlendar greiðslur, sem er grundvallar- og tímamótamál í sögu Alþingis.