152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkurn veginn nákvæmlega svona. Hv. þm. Tómas A. Tómasson er einmitt á bogfimimálinu með mér, sem er mér mikill heiður. Ég var t.d. með þrjú mál á síðasta þingi, og í raun fleiri. Ég var með mál sem laut að því að ekki þurfi að greiða fyrir rafrænan aðgang að ársreikningum, sem hæstv. ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom í gegnum þingið. Ég var með mál um brottfall tómra laga sem nokkrir ráðherrar tóku inn á sitt málefnasvið og komu í gegn. Ég var líka með mál um að samþykkja þriðju valfrjálsu bókun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var inni í farsældarfrumvarpi félags- og barnamálaráðherra. Þetta eru allt mál sem ég var búinn að vera með í þó nokkuð langan tíma og ríkisstjórnin tók inn í sín frumvörp og þannig fóru þau í gegn. Við höfum ítrekað verið með breytingartillögur við fjárlög og ýmislegt svoleiðis. Það er mér mjög minnisstætt þegar felld var niður heimild fyrir framhaldsskóla til að taka efnisgjöld frá nemendum og þá náttúrlega fá þeir minni pening. Það gleymdist að koma með fjárheimild á móti til að bæta þeim það upp. Nema hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafði séð þetta og skutlaði inn breytingartillögu fyrir þeirri upphæð sem ráðuneytið var búið að segja að þetta myndi kosta. Það varð uppi fótur og fit í þinginu þar sem stjórnarmeirihlutinn gat ómögulega sætt sig við að greiða atkvæði með þessu 300 millj. kr. fjárframlagi, sem ráðuneytið sagði að vantaði. Það varð að búa til nýja breytingartillögu sem mátti náttúrlega ekki vera sama upphæð og endaði í 250 milljónum, sem við höfum ekki hugmynd um hvort dugði eða ekki, þessi minnkun á fjárframlögum til verkmenntaskólanna, (Forseti hringir.) mjög merkilegt. Þetta er allt svona og það er ömurlegt. Þetta þarf ekki að vera svona. Það er ákvörðun þeirra sem taka völdin að gera þetta svona.