152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

vegurinn yfir Hellisheiði.

[10:46]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki skoðað nýlega hvort göng séu vænlegur kostur enda minnir mig að í þeirri umræðu hafi það verið slegið út af borðinu, m.a. vegna mjög mikils jarðhita og reyndar mikils vatns sem þarna er. En ég hef hins vegar sjálfur fyrir allnokkru spurt, ég ætti nú kannski að fara að kalla eftir svari, það var ekki út af þessu veðri, hvort það væri með einhverjum hætti hægt að byggja einhvers konar vegskála yfir verstu svæðin. Staðreyndin er náttúrlega sú að í þessum veðrum sem verið hafa núna þá myndu þeir ekki hafa hjálpað nokkurn skapaðan hlut vegna þess að veðrið á Sandskeiðinu er oft verst en ekki uppi á Hellisheiði, svo maður segi bara hlutina eins og þeir eru. Staðreyndin er sú að kannski hefur það eina breyst að almannavarnir, þ.e. björgunarsveitirnar sem hjálpa oft til, sem og lögreglan, hafa verið með aukinn þrýsting á að loka en ella. Og þegar versta ástandið varð um daginn þá lokuðu menn í raun klukkutíma of seint og það voru tugir bíla sem festust, sem tók síðan meira en sólarhring að losa. Þannig að (Forseti hringir.) ég held því miður að við verðum að sætta okkur við að veðrið á Íslandi er alla vega og núna í febrúar var það sérstaklega skítt, en það er vonandi búið.