152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

lífeyrisbætur og verðbólguhækkanir.

[10:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Verðbólgan er komin á fleygiferð og verðbólgudraugurinn kominn af stað. Í þessum ræðustól, í miðju Covid, sagði hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn frá mér að hann hefði litlar áhyggjur af verðbólgunni. Ég hugsa að það hljóti að vera breytt núna og nú dynja yfir hækkanir á nauðsynjavörum. Á hverjum bitnar það helst? Jú, þeim verst settu, sem eru í almannatryggingakerfinu. Í bréfi sem hæstv. fjármálaráðherra sendi til ellilífeyrisþega í aðdraganda kosninga árið 2013 sagði m.a.:

„Við viljum að þeir sem komnir eru á efri ár njóti afraksturs erfiðis síns. Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki að íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu.“

Hann sagði einnig:

„Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða.“

Hver er staðan nú átta árum síðar eftir viðstöðulausa setu hæstv. fjármálaráðherra í ríkisstjórn? Lífeyrisgreiðslur skerða ellilífeyri um 45%. Hvað þýðir það á mannamáli? Jú, það þýðir að einstaklingur sem er með 200.000 kr. í lífeyrissjóð fær útborgaðar 64.000 kr. — 64.000 kr. af 200.000 kr. í almannatryggingakerfinu. Þetta er næstum því 70% skattur og skerðingar. Er það eðlilegt, hæstv. fjármálaráðherra? Ég spyr: Hvað meinti ráðherra með þessum orðum: Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris, þar er sannarlega um réttlætismál að ræða? Ætlar hann að taka á þessum miklu skerðingum í lífeyriskerfinu?