152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

fullgilding fríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Liechtenstein og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

206. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér lendir sá sem talar í smá vandræðum því að það var gætt trúnaðar í nefndinni um minnisblað frá utanríkisráðuneytinu um samningaviðræðurnar, hvernig var tekist á við þær. En allra okkar hagsmuna var gætt og menn tóku fullan þátt í samningsgerðinni. Það er áhugavert að benda á gagnvart EES-samningnum og síðan samspili Noregs og Evrópusambandsins að Norðmenn hafa verið ákaflega duglegir að passa upp á EES-samninginn af sinni hálfu og ef ég man rétt þá hafa þeir verið með 70 starfsmenn í Brussel að fást við samninginn. Við Íslendingar tókum á síðasta kjörtímabili þá ákvörðun að setja aukið fjármagn í þetta í gegnum fjárlögin og þingið tók ákvörðun um það hér að fjölga okkar fulltrúum í Brussel þannig að hvert og eitt ráðuneyti væri meira með á nótunum. Fyrir ekki löngu síðan vorum við með kannski tvo fulltrúa úti í Brussel en núna erum við komin með sjö, átta manns, ef ég man þetta rétt, þannig að flest ráðuneytin sem passa upp á hagsmuni Íslendinga taka þátt. Auðvitað er Noregur stóri aðilinn í EES-samningnum í dag, þeim megin, og með Bretana þá fylgjum við náttúrlega að einhverju leyti með. En ég get fullvissað þingmanninn að við tókum þátt og gættum hagsmuna okkar Íslendinga í gegnum okkar samninganefnd og tókum fullan þátt í þessu starfi. En það er svolítið erfitt að muna nákvæmlega hvað maður má segja út frá þessu minnisblaði sem við fengum, maður hefði kannski verið betur undirbúinn ef maður hefði áttað sig á hvað yrði spurt út í.