152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

tekjustofnar sveitarfélaga.

78. mál
[14:46]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú er það á ábyrgð kjörinna fulltrúa að passa upp á fjárhag sveitarfélaga þannig að með þessu verkfæri sem verið er að leggja til hér þá verður þetta mjög misjafnt hvað varðar eignir, segjum t.d. bara 30 m² hús á Hornströndum og 30 m² hús hér á Austurvelli. Ekki getur sveitarfélagið lagt mismunandi á eftir því hvar húsnæði stendur. Á þá sveitarfélag fyrir vestan, nú er Ísafjarðarbær með Hornstrandir, að vera með allt aðra krónutölu á fermetra heldur en Reykjavíkurborg sem hefur yfir að ráða fleiri milljónum fermetra? Eins langar mig til að spyrja um b-lið, þ.e. að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða mismunandi fjárhæð skatts á hvern fermetra í flokknum erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum. Nú er það svo að bújarðir geta orðið þó nokkuð stórar og hér er ekki talað um tegundir af landi. Tökum bara meðalsauðfjárjörð í Skagafirði sem er 4.000 hektarar, sem eru 40 milljónir fermetra. Hvað sjá flutningsmenn fyrir sér að verði fasteignaverð á fermetra í slíku tilfelli?