152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

flýtimeðferð dvalarleyfis.

[15:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það kemur mér talsvert á óvart að hv. þingmaður skuli ekki gleðjast yfir þeirri ákvörðun að virkja í fyrsta skipti 44. gr. útlendingalaga sem opnar faðm okkar gagnvart því fólki sem er í mikilli neyð í Úkraínu. (ÞSÆ: Eitt ár.) Já, eitt ár og síðan er hægt að framlengja það. Í mínum huga er mjög ánægjulegt að við höfum ákveðið að opna faðminn gagnvart því fólki sem þarna er í mikilli neyð og þessi orð hv. þingmanns koma mér bara á óvart. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að þetta fólk eigi ekki að geta fengið hér vinnu. Vissulega gæti lagaumhverfi verið betra þannig að það kæmi sjálfkrafa atvinnuleyfi þegar um er að ræða dvalarleyfi af mannúðarástæðum eins og er í þessu tilfelli. Það er eitthvað sem stendur til að laga og ég vonast til að verði hægt að gera. Þetta fólk sem kemur inn með þessum hætti mun hafa öll þau sömu réttindi og aðrir flóttamenn nema þegar kemur að réttindum í almannatryggingakerfinu.