152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir þessar góðu spurningar og talandi um 100 daga kenninguna þá er þetta kannski það mál sem blikkar mest og fær mikla umræðu hér í þinginu. Varðandi hlutverk spítalans þá vil ég bara segja að það hefur lukkast mjög vel að ráða nýjan forstjóra og þetta segi ég með fullri virðingu fyrir þeim sem tók tímabundið við, sem er sannarlega með hjartað á réttum stað fyrir hönd spítalans. Við höfum rætt hlutverk spítalans og hluta af því er að finna í frumvarpinu um að koma stjórn á spítalann til stuðnings þeim sem starfa þar. Varðandi heilsugæslurnar þá er starfshópur í gangi sem ég setti á fót til að endurskoða reiknilíkanið. Þegar við erum að tala um styrkingu heilsugæslunnar blasir við að hluti af þeirri aukningu hefur farið fram hjá líkaninu og þetta þurfum við að skoða vegna þess að ég er (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að það eigi að vera fullt jafnræði, algerlega óháð rekstrarformi og (Forseti hringir.) allir eiga að taka þátt. Það eru tveir aðilar í þessum hópi sem ég lagði áherslu á að tryggja í endurskoðun á reiknilíkaninu þannig að við tryggjum bæði gagnsæi og jafnræði í gegnum þetta líkan.