152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

raforkuöryggi.

[15:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnirnar og ummæli hennar hér í ræðustól. Mér fannst hv. þingmaður ná að ramma vel inn í seinna svari sínu að við Íslendingar höfum góða reynslu af orkuskiptum. Við fórum hér fyrst og sáum til þess að við værum með grænt rafmagn og síðan hitaveitu. Við erum búin að fara í tvenn orkuskipti sem gerðu lífskjör okkar miklu betri, bæði hvað varðar umhverfismálin og efnahagsmálin og styrkti samkeppnisstöðu okkar. Núna höfum við sett fram mjög metnaðarfull markmið þegar kemur að þriðju orkuskiptunum sem eru auðvitað gríðarlega stór þáttur í markmiðum okkar í loftslagsmálum. Ég vonast til þess að við getum átt gott samtal um þetta í þinginu en aðalatriðið er nú samt að við náum árangri til heilla fyrir alla landsmenn.