152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:31]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga höfum við Íslendingar fylgst með framgöngu Pútíns við innrás Rússlands í Úkraínu með angist. Enn á ný hefur Rússland þverbrotið alþjóðalög og grimmdin og glæpirnir sem Pútín hefur fyrirskipað í Úkraínu munu aldrei gleymast. En það er hins vegar ekki Pútín sem hefur átt hug okkar allan heldur úkraínska þjóðin. Baráttuandinn, hugrekkið og þrekið sem hún hefur sýnt við ólýsanlegar aðstæður eru okkur vinaþjóðum hennar hvatning til þess að gefast heldur ekki upp. Í fyrsta sinn í langan tíma eru alþjóðamálin í brennidepli á Íslandi. Það þurfti hreinlega að koma til stríð í Evrópu svo óveður væri ekki á forsíðu íslensku blaðanna enn einn daginn. Það er jákvætt að Íslendingar vakni til lífsins hvað þessi mál varðar, að nú sé öllum ljóst hversu lánsöm við erum að vera í NATO, sterkasta varnarbandalagi heims, og þar að auki með varnarsamning við Bandaríkin. Úkraína vildi gjarnan vera í þeirri stöðu og Eystrasaltsríkin eiga nú tilveru sína að þakka aðildinni að NATO. Það er öllum orðið ljóst eftir að hafa hlýtt á dagdrauma og söguskýringar Pútíns og á allra síðustu dögum hafa augu fleiri en Íslendinga opnast. Stefnubreyting varð hjá Þjóðverjum sem ákváðu að senda Úkraínumönnum vopn og búnað úr eigin birgðum. Svíþjóð rauf sögulega hlutleysisafstöðu sína með því að senda þeim vopn og það gerði Sviss sömuleiðis. Nokkrar þjóðir hafa veitt ríkisborgurum sínum blessun til að halda til Úkraínu og berjast við hlið heimamanna, m.a. Tékkar og Danir. Úkraínski herinn hafði kallað eftir því að honum yrði sýndur stuðningur í verki með mannafla til að verjast innrásinni. Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf á algerri samstöðu lýðræðisríkja sem hafna innrás Rússlands í fullvalda ríki. Skilaboðin eru þau að brot á alþjóðalögum verði ekki liðin og það eiga fáar þjóðir meira undir þeim en við Íslendingar.

En það er annað og meira sem hefur vakið okkar friðsæla heimshluta upp af værum svefni. Við höfum nefnilega sofnað á verðinum. Við höfum bæði verið of værukær og við höfum viljandi litið í hina áttina, meira að segja þegar ógnin hefur verið áþreifanleg og árásargirnin og heimsvaldastefnan grímulaus. Þegar eiginlegt áþreifanlegt stríð skall á af fullum þunga í okkar heimshluta þá áttuðum við okkur loksins á því hvað gæti tapast í þessu stríði. Reagan sagði sögu af kúbverskum flóttamanni sem hafi flúið Kúbu Castros og sest að í Bandaríkjunum. Þegar Kúbverjinn sagði Bandaríkjamönnum eitt sinn sögu sína sögðu þeir hver við annan að þeir áttuðu sig ekki á því hversu heppnir þeir væru. Kúbverjinn svaraði þá: Hversu heppnir þið eruð? Ég hafði stað til að flýja til. Það var boðskapur sögunnar. Ef við töpum frelsinu fyrir hugsunarleysinu, fyrir kúguninni og fyrir ofríkinu þá höfum við engan stað til að flýja til. Þúsundir nágranna okkar sem streyma nú til Evrópuríkis til að taka þátt í stríði átta sig á þessu. Þeir taka þátt í stríði til að draga línu í sandinn fyrir friðinn. Forystumenn í Evrópu hafa verið máttlausir undanfarin ár og jafnvel aukið á pólitískt erfið viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld, en sá tími er vonandi á enda. Við getum ekki staðið aðgerðalaus hjá á meðan harðstjóri dregur upp nýtt járntjald og kallar með því þjáningu og dauða yfir milljónir manna.

Við sem búum í þessum heimshluta, við sem höfum búið við þennan frið og þessa velmegun sem aðrir börðust fyrir að við gætum notið, verðum að gera allt sem við getum til að leggja Úkraínu lið. Við sem höfum mestu að tapa þurfum að haga okkur þannig. Ég skil það því eftir hjá hæstv. utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra: Erum við Íslendingar örugglega að gera nóg?