152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þessa dagana fyllumst við öll máttleysi og vanmætti þegar við sjáum hinar skelfilegu hörmungar sem dynja yfir Úkraínu. Það er okkur eðlislægt að finna til með fólki í neyð. Í huga okkar koma upp spurningar eins og: Hvað ef þetta væri ég? Hvað get ég gert til að hjálpa? Við sem höfum unnið við mannúðarstörf í áratugi þekkjum vel þessar spurningar því að þær eru drifkrafturinn í því erfiða starfi sem á sér stað í kjölfar mikilla hörmunga eins og þeirra sem við upplifum nú. Við höfum öll séð skelfilegar myndir af íbúum borga Úkraínu þar sem þeir hírast í kjöllurum og neðanjarðarbyrgjum, og eignast jafnvel börn við þær aðstæður, til að flýja sprengjuregn rússneska hersins.

Það að sinna mannúðarstarfi á átakasvæðum er ekki á færi hvers sem er. Þar gegna lykilhlutverki sérhæfðar hjálparstofnanir eins og alþjóðaráð Rauða krossins. Það var því ánægjulegt að sjá strax í upphafi stríðsins að íslensk stjórnvöld veittu 50 millj. kr. styrk til þeirra. Er það von mín að sú upphæð muni hækka í ljósi versnandi ástands á vettvangi. Á sama tíma eru milljónir manna á flótta innan Úkraínu og nú þegar hefur yfir ein og hálf milljón manns, aðallega konur og börn, flúið til þeirra landa sem landamæri eiga að Úkraínu. Þau sem eiga ættingja og vini innan Evrópu halda áfram landleiðina. Löndin sem fólkið flýr til eru misvel stödd til að takast á við þennan mesta fjölda flóttamanna í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Hjálparstofnanir alls staðar að úr heiminum flykkjast nú til þessara landa til að aðstoða stjórnvöld við að takast á við þessa skelfilegu neyð. Þar getum við Íslendingar einnig lagt okkar af mörkum, bæði í formi fjármagns til hjálparstofnana en einnig með því að senda þangað fólk og búnað, t.d. í gegnum almannavarnasamstarf Evrópuríkja.

Það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig allt samfélagið í þessum löndum stendur saman að því að aðstoða. Fólk opnar heimili sín, veitingastaðir elda ofan í fólk og fyrirtæki og einstaklingar gefa fólki vörur og þjónustu, enda koma flestir varla með neitt með sér yfir landamærin nema þá kannski eina tösku. Nú þegar hafa um 100 Úkraínubúar flúið til Íslands í leit að skjóli frá stríðinu í Úkraínu. Við megum búast við því að sá fjöldi aukist hratt á næstu dögum og vikum og er alls ekki fjarri lagi að nokkur þúsund manna leiti hingað til lands, allt eftir því hversu lengi stríðsátökin halda áfram í Úkraínu. Stjórnvöld hafa nú þegar tekið fyrstu skrefin í að undirbúa móttöku þessa fólks. Virkjuð hefur verið 44. gr. útlendingalaga sem heimilar skilgreiningu þeirra sem fjöldaflóttafólks og nú í dag tilkynnti hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um skipun sérstaks aðgerðahóps til að samhæfa móttökuna. Það eru allt góð fyrstu skref, en betur má ef duga skal því að þeir sem koma hingað til lands undir 44. gr. útlendingalaga hafa lakari réttarstöðu en annað flóttafólk og fá t.d. ekki atvinnuleyfi hér á landi.

Það dugar ekki að við höldum að ríki og sveitarfélög hér á landi geti höndlað þetta ein og sér. Rétt eins og í löndunum sem eiga landamæri að Úkraínu og eru að taka á móti tugum þúsunda nýrra flóttamanna á dag þá þarf allt íslenska samfélagið að standa saman í því að leysa þá stærstu samfélags- og mannúðaráskorun sem við höfum staðið frammi fyrir um áratugaskeið. Þetta er verkefni sem ríki og sveitarfélög geta ekki leyst ein og sér. Við þurfum að virkja almenning, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir í að vinna saman sem eitt teymi. Það er von mín að aðgerðahópur sá sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra tilkynnti um í morgun verði ekki einungis pólitískur vettvangur til að samræma aðgerðir, heldur verði einnig tryggt að dagleg samhæfing á milli allra þeirra aðila sem vilja leggja hönd á plóginn sé keyrð áfram á sem skilvirkastan hátt. Við þurfum öll að vinna saman í því að taka utan um þetta fólk á flótta. Við þurfum að aðstoða það við að komast inn í íslenskt samfélag. Við þurfum að styðja við bakið á því á þessum erfiðu tímum í framandi landi. Við þurfum að fá börnin okkar til þess að taka vel á móti nýjum nemendum í framandi landi. Við þurfum að vinna saman sem ein þjóð í því að sýna að hjarta okkar slær með Úkraínubúum. Með leyfi forseta: Slava Ukraini.