152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[18:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það á að slíta stjórnmálasambandi við Rússland strax og reka sendiherra Rússlands úr landi. Þetta þarf að ræða í alvöru hér hjá stjórnmálaflokkum á Alþingi. Orðræða sendiherra Rússlands á Íslandi er ansi árásargjörn og ekkert annað en gróf tilraun til blekkingar og fölsunar á staðreyndum. Sendiherra Rússlands á Íslandi segir þetta ekki innrás heldur hernaðaraðgerð til að tryggja öryggi rússneskra borgara bæði í Úkraínu og í Rússlandi. Markmiðið sé að draga úr styrk hersins í Úkraínu. Þá sagði sendiherra Rússlands á Íslandi í viðtali við fréttastofu RÚV að þetta væri yfir höfuð ekki innrás á yfirráðasvæði Úkraínu. Þvílíkar blekkingar. Svona málflutningur gerir hann hættulegan og brottrækan og við verðum að senda skýr skilaboð um að við líðum ekki falsupplýsingar um stríðið í Úkraínu, fáránlegar upplýsingar frá þeim sem eru nú þegar að sprengja og skjóta á almenning og börn í Úkraínu og á varnarlaust fatlað fólk, veikt fólk og aldraðra sem geta enga björg sér veitt.

Aðstæður fólks í úkraínskum borgum er skelfilegar. Pútín og hans herstjórn láta stórskotahríð dynja á heimilum fólks og börn falla. Það er engin örugg leið út úr verst settu borgunum og almenningur getur ekki forðað sér frá rússneska ofbeldishernum. Þá er skortur á mat, vatni og lækningavörum farinn að segja illilega til sín og í mörgum borgum Úkraínu er ekkert gas heldur. Vonandi er allt komið þegar þrennt er, þ.e. Lenín, Stalín og Pútín sem er núna kominn í þennan skelfilega félagsskap ofbeldismanna í sögu mannkyns. Þeir sem kenna sig við sósíalisma eða kommúnisma verða nú að fara í naflaskoðun og átta sig á að það er ekkert réttlæti til í orðabók valdhafa í Rússlandi. Stríðið í Úkraínu verður að stöðva með öllum ráðum. Það er óásættanlegt að hundruð eða þúsundir manna falli í valinn í þessu stríði, hvað þá fjöldi barna. Okkur ber stöðva rússneska einræðisherrann og fylgifiska hans sem fara með þessu skelfilega ofbeldi gegn frjálsu lýðræðislandi. Almenningur er skotmark og börn. Þess vegna ber okkur að slíta stjórnmálasambandi við Rússland. Okkur ber að senda sendiherrann og stuðningsmenn Pútíns heim. Það vinnur enginn stríð, það tapa allir á stríði og þeir sem tapa mestu eru þeir sem standa verst að vígi.

Við höfum hlustað hér í dag á ræður um það hvað við þurfum að gera og hvað við ættum að gera. Núna þurfum við að bretta upp ermarnar og framkvæma. Við verðum að senda skýr skilaboð um að við munum aldrei nokkurn tímann líða það að einræðisherra, sem einhverra hluta vegna hefur snúið öllum staðreyndum á hvolf, geti ráðist inn í land þar sem það eina sem fólkið vildi var að lifa frjálst og ráða sínum eigin málum. Flokkur fólksins vill senda skýr skilaboð og bara þannig stöndum við heils hugar með úkraínsku þjóðinni og styðjum hana að fullu í þeirri baráttu sem hún heyr núna fyrir því að vera frjáls og óháð og fá að lifa sínu lífi eins og hún vill, ekki eins og Pútín vill.