152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður tali með þessum hætti því Samtökin '78, sem eru samtök hinsegin fólks, komu að því verkefni að móta þessa áætlun og satt best að segja leyfi ég mér að segja að samstarf okkar við Samtökin '78 hafi verið einstaklega farsælt þó að hv. þingmaður tali með þessum hætti. Ég vil síðan minna hv. þingmann, því að hv. þingmaður segir að velferðarmál komi ekki inn á borð Vinstri grænna í þessari ríkisstjórn, á að málefni almannatrygginga, öryrkja og aldraðra er líklega stærsta velferðarmálið sem við er að eiga og ég held að ég verði að fá leyfi til að upplýsa hv. þingmann um að þau heyra undir félagsmálaráðuneytið. En síðan er það svo að við erum að sjálfsögðu að vinna sameiginlega að ýmsum þeim velferðarmálum sem undir okkur heyra. Og kem ég þá að orðum hv. þingmanns um þessa áætlun sem hann gerir lítið úr. Þessi áætlun er unnin, eins og ég rakti hér, í ágætu samráði, ekki bara stjórnkerfisins heldur líka við hagsmunasamtök hinsegin fólks fyrst og fremst og tekur á málum sem þau hafa verið að flagga árum saman. Ég nefndi hér hatursorðræðuna, ég nefndi líðan barna og ungmenna, ég nefndi heimilisofbeldi á hinsegin heimilum sem hefur verið mál sem við höfum ekki rætt. Það kann vel að vera að hv. þingmanni finnist þetta allt hin ómerkilegustu mál og þá er það bara hans afstaða. Það er ekki mín afstaða. Ég hef á þessu þingi lagt fram mörg mál sem lúta að réttarstöðu hinsegin fólks, smá og stór, og þau hafa öll þjónað því sama markmiði að tryggja betur réttindi þessa hóps vegna þess að ég trúi því að samfélagið sé betra þannig. Ég ætla hins vegar ekki að láta tala það niður sem hér er sagt í þessari aðgerðaáætlun, að það sé eitthvert plagg um ekkert. Það finnst mér lýsa vanþekkingu á málaflokknum hjá hv. þingmanni.