152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að hatursorðræðunni. Í 9. lið aðgerðaáætlunarinnar er beinlínis lagt til að það verði unnið að lagabreytingu þannig að þessi hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna verði gerð refsiverð en líka verði gert refsivert að neita einstaklingi um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli kyneinkenna o.s.frv. Þetta er rakið hér allt. Þetta er beinlínis til að koma til móts við regnbogakortið sem ILGA Europe hefur birt þar sem hefur verið bent á nákvæmlega þetta, að lagaákvæði á Íslandi um hatursorðræðu og hatursglæpi veiti ekki fullnægjandi vernd fyrir hinsegin fólk. Það var lagt fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem var lögð til sú útvíkkun að þetta næði einnig til kyneinkenna, en núna er talað um kynhneigð og kynvitund þannig að þetta er mjög jákvæð breyting. Þá væri fólki með ódæmigerð kyneinkenni tryggð sama vernd og öðrum viðkvæmum hópum. Sömuleiðis myndi þessi breyting hafa í för með sér refsiþyngingu og þá teljum við í öllu falli að þetta myndi koma beinlínis til móts við þessar athugasemdir sem hv. þingmaður nefndi og ég get bara tekið undir með henni að er mjög mikilvægt að við gerum betur í.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um fólk á flótta þá er það algjörlega rétt, þetta er auðvitað mjög viðkvæmur hópur, eins og raunar fleiri sem taldir eru upp í 37. gr. útlendingalaga. Ég get nefnt fólk með fötlun og fleiri bara mjög viðkvæma hópa sem við þurfum að huga sérstaklega að og veita sérstaka þjónustu. En það sem þetta snýst um er: Viljum við taka einn viðkvæman hóp út fyrir eða að horfa frekar á útlendingalögin og horfa sérstaklega á vernd fyrir viðkvæma hópa eins og hún er skilgreind þar? Það eru auðvitað fleiri hópar. Það er vissulega hinsegin fólk og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það en það má líka einmitt horfa til fatlaðra, fólks með langvinna sjúkdóma og fleiri slíkra hópa.