152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ýmislegt ágætt við þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks til næstu fjögurra ára en þegar ég sá málið á þingmálaskrá þá átti ég von á frekari aðgerðum, að það væru raunverulegar aðgerðir í tillögunni þannig að við sæjum breytingar á kerfinu okkar, ekki að við fengjum skýrslu um ástandið af því að það er fjölmargt sem við getum gert betur en við gerum núna. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því hér áðan hvort hún teldi 45 milljónir á fjórum árum vera nægt fjármagn í aðgerðaáætlun sem hún segir vera metnaðarfulla í málefnum hinsegin fólks og hún taldi að þetta væri nóg. Þetta myndi rúmast innan ráðuneytanna sem ættu að fást við þetta allt saman af því að þetta er jú meira og minna einhver kortlagning á stöðu en minna um raunverulegar aðgerðir til að bæta stöðu sem okkur er fullkunnugt um að er ófullnægjandi.

Það eru nokkur atriði sem mig langar aðeins að ræða hérna. Það er kannski fyrst þegar kemur að því að rannsaka stöðu og réttindi hinsegin fólks, kortlagningu hjá hinum og þessum aðilum. Það á að fræða stjórnendur ríkisins um hinsegin málefni. Það á að fræða lögregluna um hinsegin málefni. Það á að fræða kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga um hinsegin málefni. Það á að útbúa fræðsluefni um hinsegin börn í ungmenna-, íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi og allt er það mjög gott. En svo á að gera könnun á viðhorfi og þekkingu atvinnurekenda á stöðu og aðgengi hinsegin fólks að vinnumarkaði. Þar á t.d. ekki að spyrja hinsegin fólk um stöðu sína á vinnumarkaði. Það á að spyrja atvinnurekendur hver staðan sé. Það er kannski þetta sem mér finnst svo áberandi í þessu, í sjávarútvegi og landbúnaði á að gera könnun á viðhorfi og stöðu hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar. Mér finnst þetta allt saman bera þess merki að þessi þingsályktunartillaga hafi verið unnin í ofboðslegum flýti af því að það er einhvern veginn svo lítið samræmi þarna. Sums staðar á að fræða, sums staðar á að rannsaka, sums staðar á að gera úttekt á líðan, sums staðar á að gera úttekt á því hvernig annað fólk telur að hinsegin fólki líði.

Það er auðvitað mjög gott að við gerum okkur grein fyrir því hvernig hinsegin fólki gengur en þetta er fjögurra ára áætlun. Ég hefði haldið að við þyrftum kannski aðeins að spýta í núna. Við vitum að hinsegin ungmennum og börnum í skólakerfinu líður illa. Menntamálaráðuneytinu er í lófa lagið að fara inn í aðalnámskrána og gera þar róttækar breytingar til að koma til móts við þessa staðreynd sem við vitum um. Hvað er það í skólaumhverfinu og okkar samfélagi sem gerir það að verkum að börnunum okkar líður illa? Af hverju sjáum við ekki í þessu plaggi einhverja raunverulega aðgerðaáætlun til að koma til móts við þetta? Af hverju erum við ekki í þessari aðgerðaáætlun að framfylgja því sem við höfum nú þegar ákveðið, sem er að veita trans börnum þjónustu hjá trans teyminu? Það eru ofboðslegir biðlistar fyrir börn og þessi ár sem börn og ungmenni bíða á biðlistum eftir þjónustu í trans teymi Landspítala geta valdið óafturkræfum skaða. Þau geta valdið miklum skaða hvað varðar geðheilbrigði þeirra og sjálfsmynd. Sum þeirra lifa hreinlega ekki biðina af og það er staðreynd, frú forseti. Það er svo skrýtið að koma hingað með þetta plagg upp á 12 síður og vera í rauninni ekki að ávarpa þá stöðu sem við höfum fyrir augum, við vitum þetta.

Aftur segi ég: Það er gott að fræða lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk um stöðuna. Það er gott að fræða íþróttafélögin. Það er gott að fræða kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga en fjögurra ára aðgerðaáætlun ætti að geta gert meira. Það vekur líka, eins og ég sagði hér í andsvari áðan, athygli mína að reglugerð sem boðuð var sumarið 2021 sé nú komin inn í aðgerðaáætlun til fjögurra ára. Af hverju var henni ekki bara breytt? Ef einhver ótti er um að þeir sem eru hinsegin og gefa blóð kunni að vera smitaðir af banvænum sjúkdómum þá á það við um okkur öll. Blóðið er skimað, það hefur verið svoleiðis um langt skeið. Þetta eru fordómar, frú forseti, sem valda því að reglugerðinni er ekki breytt.

Ég verð að taka undir orð hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar. Það vekur furðu að hvergi sé minnst á fólk á flótta í þessari aðgerðaáætlun. Þó var það svo að í nokkrum umsögnum sem bárust í samráðsgátt, sem ég get ekki séð að nokkurt tillit hafi verið tekið til, var minnst á þetta, algjöran skort á aðgerðum er varða fólk á flótta. Við vitum alveg hvernig það er, það er lítið tillit tekið til hinsegin fólks á flótta. Fólki er gert að flýja til annarra svæða innan ríkja sinna þar sem það þekkist ekki, þar sem enginn veit mögulega að það sé hinsegin, af því að þá sé minni hætta á ferðum. Í mörgum ríkjum heims er lífshættulegt að vera hinsegin og fólk lifir í felum með þá staðreynd.

Ég verð að segja: Við getum gert svo miklu betur. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra segi sínu fólki í allsherjar- og menntamálanefnd, og þingmönnum annarra stjórnarflokka sömuleiðis, að þeim sé frjálst að vinna að breytingum á þessari þingsályktunartillögu. Ég hef áhyggjur af því að hún þvælist frekar fyrir okkur heldur en hitt, af því að hún boðar óskaplega lítil og stutt skref í átt að jafnrétti í málefnum hinsegin fólks.